Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarmanna

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Með námi við hæfi opnast dyr sem áður voru lokaðar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu og vísindi að vopni.

Nám fatlaðs fólks – réttur til náms á öllum skólastigum

Öll eigum við rétt á að mennta okkur eins og kemur fram í Sáttmála Sameinuðu þjóðana um málefni fatlaðs fólks. Á Íslandi á að vera jafnrétti til náms en þrátt fyrir að jákvæð skref hafi verið stigin er enn mikið verk að vinna. Ólíkar hindranir mæta fólki með ólíka færni og hæfni. Með því að hanna og vinna að inngildandi og aðgengilegu skólakerfi á öllum skólastigum komumst við nær því markmiði að hér ríki í raun jafnrétti til náms.

Samfylkingin leggur áherslu á að menntastofnanir fái fjármagn og faglegan stuðning til þess að verða inngildandi og aðgengilegar. Einnig þarf að tryggja fötluðum nemendum fullnægjandi aðstoð á skólatímum við allt sem viðkemur virkri þátttöku í námi og almennu skólastarfi. Við viljum auka þekkingu kennara og kennaranema, með menntun og endurmenntun, á inngildandi kennsluaðferðum og sérhæfni hvað varðar fatlaða nemendur.

Viðhafa þarf samráð við fatlað fólk varðandi alla stefnumótun sem varðar þeirra líf og fullorðnu fólki með þroskahömlun á að bjóðast fjölbreytt nám að loknu námi í framhaldsskólum auk símenntunar, starfsþjálfunar og fullorðinsfræðslu.