Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Ábyrg hagstjórn

Ábyrg hagstjórn með áherslu á fulla atvinnu er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga  ásamt sterkri almennri velferðarþjónustu og skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði. Ísland heldur úti minnstu sjálfstæðu mynt í heimi sem gerir agaða hagstjórn enn mikilvægari en ella fyrir lífskjör almennings. Þar skiptir umgjörð og góð samstilling ríkisfjármála og peningastefnu mestu máli. Nauðsynlegt er að á Íslandi starfi sjálfstæð greiningarstofnun á sviði efnahagsmála til að  stuðla að upplýstri umræðu um efnahagsþróun, afkomu þjóðarbúsins og ábyrga hagstjórn. Þess vegna vill Samfylkingin endurreisa Þjóðhagsstofnun. 

Samfylkingin leggur áherslu á að fjármál hins opinbera séu sjálfbær til lengri tíma og að ríkisfjármálum sé beitt til sveiflujöfnunar í hagkerfinu með örvandi aðgerðum í kreppu en aðhaldssemi á uppgangstímum. Þessu hefur jafnan verið öfugt farið á Íslandi sem hefur ýtt undir óstöðugleika. Lög um opinber fjármál hafa bætt verklag og aukið festu við gerð fjárlaga og langtímastefnumótun í ríkisfjármálum. Reglur laganna um afkomu og skuldir ríkissjóðs byggja þó á veikum grunni, torvelda sveiflujöfnun og þarfnast endurskoðunar. Að reka ríkissjóð er ekki eins og að reka heimili eða fyrirtæki. Samfylkingin vill að í stað strangra fjármálareglna sé byggt á ríkisfjármálaviðmiðum þar sem tekið er tillit til efnahagslegra aðstæðna hverju sinni og gerður greinarmunur á rekstrarútgjöldum og fjárfestingarútgjöldum.

Íslensku samfélagi hefur að mörgu leyti farnast vel við stjórn peningamála eftir að raunverulegt sjálfstæði Seðlabankans var tryggt með lögum árið 2009, fyrir tilstilli Samfylkingarinnar, peningastefnunefnd sett á laggirnar og kveðið á um faglega skipan æðstu stjórnenda. Þessu til viðbótar hefur beiting nýrra þjóðhagsvarúðartækja og mikill gjaldeyrisvaraforði aukið trúverðugleika peningastefnunnar og leitt til minni verðbólgu, lægri vaxta og stöðugra gengis íslensku krónunnar en áður tíðkaðist. Byggja þarf áfram á þessum grunni þangað til stöðugri gjaldmiðill verður tekinn upp.

Við áframhaldandi efnahagslega endurreisn Íslands í kjölfar kórónukreppunnar er það einkum tvennt  sem hefur áhrif á hag almennings í landinu. Í fyrsta  lagi að hið opinbera hiki ekki við arðbærar fjárfestingar og nauðsynlegt viðhald til að ná fram bókhaldslegum sparnaði. Í öðru lagi hvernig og hvenær skuli unnið á fjárlagahallanum, sem er fyrst og fremst pólitísk spurning um það hvernig skuli skipta byrðunum af efnahagsáfalli vegna heimsfaraldurs.

Afstaða jafnaðarmanna er skýr: Samfylkingin vill ná sjálfbærni í ríkisfjármálum með aukinni verðmætasköpun og réttlátara skattkerfi. Við höfnum með öllu aðferð niðurskurðar í opinberum fjárfestingum, samneyslu og velferðarþjónustu, sem þyngir byrðar þeirra sem síst skyldi og grefur undan samstöðu í samfélaginu. Í því samhengi er ekki síst mikilvægt að hafa í huga að þriðjungur af rekstri hins opinbera og nær helmingur fjárfestinga er í höndum sveitarfélaga þótt þeim sé sniðinn mun þrengri stakkur til fjármögnunar en ríkissjóði. Það er áríðandi að auka fjárfestingargetu sveitarfélaga til að innviðir byggist upp í takt við þörf um allt land. 

Til lengri tíma litið er áreiðanlegasta leiðin að auknum efnahagslegum stöðugleika og bættum lífskjörum almennings fólgin í upptöku sterkari gjaldmiðils í stað minnstu sjálfstæðu myntar í heimi. Sameiginlegur gjaldmiðill með helstu viðskiptalöndum okkar myndi bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, efla samkeppni, liðka fyrir vexti sprotafyrirtækja og háframleiðnigreina og styðja þannig við þróun fjölbreyttara atvinnulífs og útflutnings. Allt eru þetta veigamikil hagsmunamál fyrir íslenskan almenning. Samfylkingin stefnir að fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu með upptöku evru að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.