Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Græn uppbygging

Markmið Samfylkingarinnar er  græn umbylting í íslensku atvinnulífi. Hamfarahlýnun af mannavöldum kallar á stórtækar aðgerðir strax og nýja hugsun á öllum sviðum samfélagsins.

Samfylkingin vill að Ísland fylgi fordæmi annarra norrænna ríkja og stofnaður verði grænn fjárfestingarsjóður í opinberri eigu sem leiti samstarfs við einkafjárfesta og sveitarfélög um allt land um uppbyggingu loftslagsvænnar atvinnustarfsemi og græns iðnaðar og þjónustu. Dæmi um verk­efni sem slíkur sjóður gæti liðkað fyrir er fram­leiðsla á  umhverfisvænu elds­neyti, þróun tækni­lausna til föng­unar og förg­unar kolefn­is og upp­bygg­ing iðn- og auð­linda­garða þar sem virði hreinnar orku er hámark­að.

Endurskoða þarf raforkulög með hliðsjón af þessum markmiðum. Aðgengi að orku og innviðum um allt land þarf að vera tryggt.

Samhliða þessu vill Samfylkingin að almenningssamgöngur verði stórefldar, ekki bara með Borgarlínu heldur stórauknum almenningssamgöngum um allt land.  Við viljum hraða orkuskiptum í samgöngum og iðnaði og kraftmikið átak verði í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Bæta þarf nýtingu úrgangs og koma skikkan á frárennslismál um allt land. Þarna eru sveitarfélög lykilaðilar og því skynsamlegt að ríkissjóður hafi milligöngu um hagstæðar lánveitingar til sveitarfélaga vegna loftslagsvænna fjárfestinga í nærsamfélaginu.

Með þessum aðgerðum vill Samfylkingin styðja við vistvæna atvinnuuppbyggingu, auka framleiðslugetu þjóðarbúsins og renna nýjum grænum stoðum undir verðmætasköpun á Íslandi.