Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Umbætur í opinberum innkaupum

Innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu munu fyrirsjáanlega verða nokkuð umfangsmikil á næstu árum. Í því sambandi má m.a. nefna uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut, Borgarlínu og önnur samgönguverkefni auk fjölbreyttra innviðaverkefni sem tengjast orkuskiptum. Sé vel staðið að opinberum innkaupum tryggir það jafnræði fyrirtækja, stuðlar að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og eflir nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu. Sé illa staðið að opinberum innkaupum er fyrirtækjum mismunað, dregið er úr hagkvæmni í opinberum rekstri, samkeppni er hamlað og þróttur dregin út nýsköpun.

Innkaup hins opinbera þurfa að vera þannig framkvæmd að bæði almenningur og bjóðendur sjái að vandað sé til verka og að málefnaleg sjónarmið ráði för við ákvarðanatöku við opinber innkaup. Samfylkingin telur að góð stjórnsýsla í opinberum innkaupum feli í sér áhrifaríka vörn gegn spillingu og að á Íslandi sé mjög mikið svigrúm til umbóta á sviði opinberra innkaupa.

Samfylkingin vill að ráðist verði í veigamiklar umbætur á þessu sviði með markvissum aðgerðum. Opinberir aðilar hafa mismikið svigrúm til umbóta. Því ætti fyrsta skref í hverju umbótaverkefni, á hverjum stað, að vera athugun og greining á stöðunni, þar sem kannað er og metið svigrúm til umbóta. Nánari skilgreining og markmiðasetning ætti að taka mið af niðurstöðu þessa fyrsta skrefs.

Samfylkingin telur að svigrúm til umbóta liggi m.a. á eftirfarandi þrem sviðum:

  1. Undirbúningur og skipulag innkaupa, þar með talið þarfagreining, samtal við markaðinn og val á innkaupaferli
  2. Framkvæmd innkaupaferlis, frá auglýsingu til undirritunar samnings
  3. Eftirfylgni og rekstur samnings

Samfylkingin vill að Ísland skilgreini og velji hentugan mælikvarða til að meta gæði opinberra innkaupa á Íslandi. Þannig megi samtímis stuðla að stöðugum umbótum, bera stöðuna hér á landi saman við það sem best gerist annars staðar og efla spillingarvarnir.