Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Heilbrigður vinnumarkaður

Samfylkingin og samtök launafólks eiga sameiginlegar rætur og skýra málefnalega samleið. Stéttarfélög eru þýðingarmikil í lýðræðissamfélagi því að þau verja hag vinnandi fólks í krafti samstöðu, standa vörð um lífskjör almennings og vega upp á móti valdi fjármagnsins. Í kjarasamningum næst mestur árangur þegar stéttarfélög standa saman. Skipulagður og heilbrigður vinnumarkaður er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt ábyrgri hagstjórn með áherslu á fulla atvinnu og sterka almenna velferðarþjónustu sem miðar að félagslegu réttlæti.

Með skipulögðum vinnumarkaði er meðal annars átt við almenna þátttöku í stéttarfélögum, að gerðir séu heildarkjarasamningar milli aðila á vinnumarkaði og að ólíkir hópar launafólks reki sameiginlega kjarastefnu.

Samfylkingin beitir sér fyrir bættum kjörum, vinnuvernd og jafnrétti á vinnumarkaði. Brýnt er að efla upplýsingagjöf um réttindi og skyldur launafólks og auka aðgengi þeirra sem þurfa að íslenskukennslu. Taka verður á félagslegum undirboðum og brotum gegn kjarasamningum af festu og gera launaþjófnað refsiverðan. Mismunun og misnotkun á vinnumarkaði má ekki líðast. Við viljum innleiða víðtækari keðjuábyrgð verktaka og stöðva kennitöluflakk. Þá vill Samfylkingin vinna gegn þeirri óheillaþróun að atvinnurekendur ráði fólk í verktöku sem ætti með réttu að hafa stöðu launafólks. Gerviverktaka grefur undan samtökum launafólks og réttindum þess á vinnumarkaði. Engu að síður er mikilvægt að gæta að stöðu og réttindum einyrkja og efla tengsl þeirra við stéttarfélögin sem þeir eiga yfirleitt samleið með.

Við viljum heilbrigðan vinnumarkað þar sem menn hagnast ekki á misferli en hlúð er að mannauði samfélagsins og uppfylltar kröfur um öruggt starfsumhverfi og vellíðan á vinnustað. Þá leggur Samfylkingin áherslu á rétt launafólks til fjölskyldulífs og jafnvægis milli heimilis og vinnu. Fjölskylduvænn vinnumarkaður útheimtir öfluga velferðarþjónustu, nægt framboð af leikskólaplássum, góða grunnskóla og frístundastarf auk stuðnings við barnafjölskyldur í gegnum skattkerfi og tilfærslur. Áfram skal unnið að styttingu vinnuvikunnar.