Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar
Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
- Inngangur
- Græn uppbygging
- Atvinnustefna
- Vinna og velferð
- Hagkerfi
- Viðskipti og samkeppni
- Vinnumarkaðurinn
- Atvinnulíf
- Skattkerfið
- Hagstjórn
- Fjármálakerfið
- Náttúruauðlindir
- Opinber innkaup
Frjáls viðskipti og virk samkeppni
Almenningi farnast best í opnu hagkerfi þar sem frjálsræði ríkir í viðskiptum, samkeppni er virk og gagnsæi ríkir í allri efnahagsstarfsemi. Frjáls viðskipti nást ekki með afskiptaleysi hins opinbera. Þvert á móti er grundvöllur frjálsra viðskipta ævinlega fólginn í því að stjórnvöld tryggi sanngjarnar leikreglur og skýra umgjörð á markaði. Aðgerðir til að efla samkeppni og auka gagnsæi í efnahagslífi eru nauðsynlegar til að markaðir virki í þágu almannahagsmuna, sem og vernd eignarréttar, fyrirsjáanlegt regluverk og eðlilegt eftirlit auk skilvirkni í framkvæmd löggæslu og dómsvalds. Samfylkingin er hins vegar alfarið andsnúin hvers kyns geðþóttaafskiptum stjórnvalda af atvinnulífi sem jafnan verða til þess að sérhagsmuna er gætt umfram almannahagsmuna. Jafnræði á að ríkja milli fyrirtækja og atvinnugreina og skýrar almennar leikreglur eiga að gilda fyrir alla.
Virk samkeppni skilar sér í lægra vöruverði og fyrir vikið meiri kaupmætti. Við kjöraðstæður keppa fyrirtæki ekki síður um hylli neytenda með því að bjóða aukin gæði, þjónustu, aðgengi og úrval. Hagkerfi okkar er afar smátt og því er mjög hætt við fákeppni. Þess vegna er virk samkeppni eitt af mikilvægustu kjaramálum almennings á Íslandi. Frumkvöðlar og smærri fyrirtæki hafa einnig ríka hagsmuni af virkri samkeppni en síður stórfyrirtækin sem hafa komið sér vel fyrir í skjóli einokunar eða fákeppni, sem dregur úr hvata til fjárfestinga og aukinnar framleiðni.
Samfylkingin er stjórnmálaflokkur launafólks sem vill að almannahagsmunir séu ætíð hafðir að leiðarljósi við stjórn landsins. Við viljum efla samkeppni í viðskiptum á Íslandi, efla neytendavernd og koma í veg fyrir skaðlega fákeppni til hagsbóta fyrir allan almenning. Til þess þurfum við að styrkja samkeppniseftirlit, bæta regluverk og ryðja úr vegi aðgangshömlum og öðrum hindrunum sem halda aftur af virkri samkeppni. Þá viljum við endurskoða skattaumhverfi smærri fyrirtækja til að stuðla að auknu jafnræði á mörkuðum.
Samfylkingin aðhyllist frelsi í alþjóðaviðskiptum. Íslenska hagkerfið er lítið, háð innflutningi á alls kyns vörum og þjónustu og tekjum af útflutningi. Ávinningur okkar af alþjóðaviðskiptum er að ýmsu leyti sá sami og af virkri samkeppni innanlands, svo sem lægra vöruverð fyrir almenning, meira úrval og frekari hvati til fjárfestinga og aukinnar framleiðni. Samkeppniseftirlitið á einmitt rætur að rekja til aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), sem var eitt mesta heillaspor Íslendinga í efnahagsmálum á undanförnum áratugum.