Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Réttlátara skattkerfi

Samfylkingin vill koma á réttlátara skattkerfi á Íslandi. Í okkar augum er tilgangur skattkerfisins annars vegar að skapa svigrúm til sameiginlegra útgjalda og hins vegar að draga úr ójöfnuði og aðstöðumun í íslensku samfélagi. Til að hvort tveggja takist með sem minnstum tilkostnaði er mikilvægt að skattkerfið sé skilvirkt, einfalt í sniðum og auðvelt í framkvæmd.

Grundvallarafstaða jafnaðarmanna í skattamálum er sú að allir greiði til samfélagsins eftir getu þannig að þeir sem bera mest úr býtum leggi hlutfallslega mest af mörkum. Reynslan sýnir að það er ekki aðeins réttlátt heldur einnig sú aðferð sem hefur gefist best í farsælustu samfélögum heims.

Samfylkingin vill lækka skatta á vinnu almenns launafólks en hækka þess í stað hlutdeild skattlagningar á fjármagn. Við viljum draga úr hlutfallslegu vægi flatra skatta og gjalda sem leggjast þyngra á fólk eftir því sem það hefur lægri tekjur en innheimta fullt gjald fyrir nýtingu náttúruauðlinda í þjóðareign. Þrepaskiptingu í skattkerfinu má skerpa og auka og sterk rök hníga að upptöku hóflegs stóreignaskatts með háu fríeignamarki. Þá einsetur Samfylkingin sér að ráðast af krafti gegn of háum jaðarsköttum og vinnuletjandi skerðingum, einkum í almannatryggingakerfinu.  

Samfylkingin vill taka skattaumhverfi smærri fyrirtækja til endurskoðunar með það fyrir augum að stuðla að auknu jafnræði á mörkuðum. Það er sanngirnismál en leiðir líka til fjölbreyttara og þróttmeira atvinnulífs og líflegri samkeppni en ella til hagsbóta fyrir almenning. Með skattalegum aðgerðum má hvetja smærri fyrirtæki til að renna styrkari stoðum undir eigin rekstur til framtíðar og fjölga stöðugildum. Við viljum létta á regluverki um starfsemi einyrkja til að auðvelda þeim róðurinn en efla um leið aðgerðir gegn gerviverktöku.

Síðast en ekki síst kallar réttlátara og skilvirkara skattkerfi á að við tökum á skattaundanskotum af fullri hörku. Til þess þarf pólitískan vilja. Á meðan langflestir landsmenn axla sína samfélagslegu ábyrgð af samviskusemi er fullkomlega óásættanlegt að einstakir svartir sauðir njóti forréttinda og samkeppnisforskots með því að svíkjast undan skyldum sínum án afleiðinga. Því vill Samfylkingin skrúfa fyrir skattaundanskot og skattasniðgöngu með því að stórefla skatteftirlit og skattrannsóknir, herða viðurlög við alvarlegum brotum og leggja baráttunni auk þess lið á alþjóðlegum vettvangi.