Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Vinna og velferð

Vinnan er undirstaða velferðar í samfélaginu og eiga allir íbúar rétt á því að geta unnið fyrir sér, helst á því sviði sem hæfileikar og menntun standa til. Sterk almenn velferðarþjónusta er að sama skapi undirstaða vinnu í samfélaginu og lykilatriði í því að viðhalda hárri atvinnuþátttöku og kraftmikilli verðmætasköpun.

Með öflugri velferðarþjónustu og tryggingum hlúum við best að þeim verðmætum sem felast í mannauði samfélagsins. Það er skylda samfélagsins að tryggja mannsæmandi framfærslu fólks sem finnur ekki vinnu við hæfi, tekst á við tímabundna erfiðleika eða býr við skerta starfsgetu og jafnframt að styðja þá sem geta aftur til virkni og starfa sem fyrst.

Atvinnuleitendum skal veita hvatningu og viðeigandi stuðning til að finna vinnu við hæfi. Þá þarf ávallt að leita betri leiða til að sporna við því með fyrirbyggjandi aðgerðum að starfsgeta skerðist og aðstoða fólk eftir fremsta megni við að efla og endurheimta starfsgetu þegar þess gerist þörf. Í þeim efnum skipta forvirkar aðgerðir á sviði vinnuverndar sköpum og sömuleiðis virkar vinnumarkaðsaðgerðir, gott aðgengi að starfsendurhæfingu og hvers kyns námstengdum úrræðum, svo sem sí- og endurmenntun, framhaldsfræðslu, vinnustaðanámi og starfsþjálfun, auk áherslu á fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir alla. Þar má nefna nægt framboð hlutastarfa fyrir fólk með skerta starfsgetu og sérhæfða vinnustaði fyrir fatlað fólk. Þessi nálgun er óaðskiljanleg norrænni jafnaðarstefnu og forsenda þess að við uppfyllum markmið okkar um að tryggja jafnan fulla atvinnu.

Við viljum að innflytjendur fái vinnu við hæfi og njóti sanngirni á vinnumarkaði og að stjórnvöld auðveldi ferlið við viðurkenningu menntunar erlendis frá. Þá vill Samfylkingin að  fólki sem fær hér alþjóðlega vernd bjóðist stuðningur og tækifæri til atvinnuþátttöku frá fyrsta degi.

Samfylkingin vill tryggja fulla atvinnu á Íslandi þannig að fólk sem getur unnið fái að vinna. Atvinnuleysi felur í sér sóun á starfskröftum sem samfélagið hefur ekki efni á og aldrei getur talist eðlilegt að vinnufúsum sé neitað um vinnu á meðan óleyst verkefni blasa hvarvetna við.