Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Nýting náttúruauðlinda með sjálfbærni og almannahagsmuni að leiðarljósi

Með framsækinni atvinnustefnu Samfylkingarinnar er gert ráð fyrir að við búum í haginn fyrir vöxt nýrra atvinnugreina sem auka fjölbreytni í íslensku efnahagslífi á sama tíma og við hlúum að þeim frumatvinnuvegum sem við höfum byggt á hingað til. Nýting gjöfulla gæða til sjós og lands verður alltaf ein af undirstöðum atvinnu og lífskjara á Íslandi.

Það er grundvallarafstaða Samfylkingarinnar að takmarkaðar náttúruauðlindir á Íslandi skuli nýta á forsendum sjálfbærni og almannahagsmuna. Með sjálfbærni mætum við þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Mikilvægasti þátturinn er að takast á við hamfarahlýnun af mannavöldum af fullri alvöru. Samfylkingin boðar græna atvinnubyltingu um land allt til að tryggja sjálfbærni. 

Með almannahagsmuni að leiðarljósi vill Samfylkingin skapa hvata til aukinnar framleiðni við auðlindanýtingu með nýsköpun og framförum í þekkingu og tækni, gæta jafnvægis við opinbera stefnumótun milli hagkvæmnissjónarmiða og samfélagslegra markmiða, svo sem um atvinnu- og byggðaþróun, og tryggja auk þess lýðræðislega aðkomu fólks að öllum meiriháttar ákvörðunum um atvinnuþróun sem hafa áhrif á náttúru í nærumhverfi þess. Síðast en ekki síst leggur Samfylkingin höfuðáherslu á að arður sem er tilkominn vegna auðlindarentu af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar skili sér með beinum hætti til samfélagsins.

Auðlindir í þjóðareign

Samfylkingin vill að nýtingarréttur á náttúruauðlindum í þjóðareign sé tímabundinn og úthlutað gegn fullu gjaldi. Markmiðið er að tryggja almenningi réttmæta hlutdeild í þeim umframarði sem aðeins er tilkominn vegna auðlindarentu af eigum þjóðarinnar og koma um leið í veg fyrir að einstakir aðilar hagnist óeðlilega á því að taka megnið af auðlindarentunni til sín. Auðlindagjöld eru ekki skattar heldur afnotagjald sem er innheimt eins og hver önnur leiga.

Fullt gjald fyrir nýtingu náttúruauðlinda má fá á sanngjarnan og gagnsæjan hátt með útboði nýtingarleyfa til takmarkaðs tíma í senn. Til að gjaldtakan raski ekki rekstrargrundvelli fyrirtækja sem þegar hagnýta þær náttúruauðlindir sem um ræðir verður innleiðing á slíku útboði að eiga sér stað á hæfilega löngu tímabili og taka tillit til samfélagslegra þátta.

Sjávarútvegur

Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Aðgangsstýring kvótakerfisins í sjávarútvegi er nauðsynleg til að hámarka virði fiskistofnanna en takmarkanir á veiðum mynda um leið auðlindarentu sem rennur nú nær óskipt til þeirra sem fara með nýtingarleyfi. Samfylkingin einsetur sér að tryggja að hagsmunir þjóðarinnar og almennings verði í forgrunni og að fullt gjald verði innheimt fyrir fiskveiðiauðlindina. Einfaldasta leiðin að því marki felst í árlegri innköllun hóflegs hluta aflaheimilda og útboði nýtingarleyfa til takmarkaðs tíma. Þannig skilum við auðlindarentunni til réttmæts eiganda, almennings.

Samfylkingin styður áframhaldandi hagræðingu í sjávarútvegi en geldur varhug við óhóflegri samþjöppun eignarhalds í greininni. Gæta þarf að jafnvægi milli hagkvæmnisjónarmiða og samfélagslegra markmiða um atvinnu- og byggðaþróun og herða á lögum um hámark aflahlutdeildar einstakra eða tengdra útgerðaraðila svo þau virki sem skyldi. Kanna skal kosti þess að leyfa sveitarfélögum sem fá úthlutað byggðakvóta að leigja frá sér heimildir og nýta afraksturinn til annarrar atvinnuuppbyggingar með það fyrir augum að auka fjölbreytni í atvinnulífi.

Fiskeldi

Tryggja verður að þjóðin njóti arðs af auðlindum sínum og á það við um fiskeldi eins og aðrar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Samfylkingin styður ströngustu umhverfiskröfur í fiskeldi, að vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar verði fylgt til hins ýtrasta. Tryggja verður betur lýðræðislega aðkomu íbúa að ákvörðunum um uppbyggingu fiskeldis í umhverfi þess og að tekjur skili sér til nærsamfélagsins.

Ferðaþjónusta

Samfylkingin vill treysta stöðu ferðaþjónustunnar í sátt við samfélag og náttúru og keppa að því að Ísland verði á meðal vistvænustu ferðalanda heims. Framtakssemi frumkvöðla í ferðaþjónustu hefur haft jákvæð áhrif á atvinnu- og byggðaþróun vítt og breitt um landið. Taka þarf mið af þessu í atvinnu- og byggðastefnu stjórnvalda og auka samstarf við greinina á sviði nýsköpunar.

 Brýnt er að stjórnvöld verji og fjárfesti í innviðum ferðaþjónustu og stuðli að því að framleiðslu- og þjónustugetu fyrirtækja í greininni verði viðhaldið.

Til framtíðar vill Samfylkingin leggja áherslu á aukna verðmætasköpun í greininni fremur en fjölgun ferðamanna, jafnari dreifingu þeirra um landið og aukið átak til uppbyggingar og verndar á fjölsóttum ferðamannastöðum. Brýnt er að útfæra sanngjarna innheimtu auðlindagjalds vegna nýtingar náttúru landsins af hálfu greinarinnar og sjá svo um að tekjur hins opinbera af greininni renni bæði til ríkis og sveitarfélaga.

Landbúnaður

Þróun heimsmála síðustu ár sýnir með óyggjandi hætti hversu mikilvæg innlend matvælaframleiðsla er þjóðarbúinu. Með mikilli grænni orku getum við framleitt mun meira en nú er gert og mikilvægt að nýta hana til fjölbreyttari matvælaframleiðslu, sem stuðli jafnt að heilbrigði neytenda og leiki hlutverk í baráttunni gegn loftlagsvánni.  Ísland hefur allt sem þarf til að vera leiðandi á heimsvísu í vistvænni matvælaframleiðslu. Samfylkingin vill auka aðgengi fólks um allt land að heilsusamlegum matvælum og tryggja að neytendur hafi aðgang að upplýsingum um uppruna matvæla og kolefnisfótspor. Í innkaupum hins opinbera eiga matvæli úr heilnæmum afurðum að vera í fyrirrúmi með hliðsjón af framleiðsluháttum og umhverfisáhrifum.

Í landbúnaðarmálum er stefna Samfylkingarinnar skýr: Við viljum ekki draga úr fjárframlögum til landbúnaðar á Íslandi en teljum löngu tímabært að ráðast í róttæka endurskoðun á landbúnaðarkerfinu í góðu samráði við bændur. Markmiðið er að nýta styrki hins opinbera betur með það fyrir augum að auka frelsi og bæta hag bæði bænda og neytenda en stuðla jafnframt að nýsköpun og fjölbreytni, aukinni grænmetisrækt og umhverfisvænni matvælaframleiðslu.  Samfylkingin vill auka styrki til nýsköpunar í sjálfbærum landbúnaði. Samhliða endurskoðun á beinum styrkjum til landbúnaðar þarf að hverfa jafnt og þétt frá leið tolla og innflutningstakmarkana. Stefna skal að frekari samningum við Evrópusambandið um gagnkvæma niðurfellingu tolla.

Dýravelferð

Samfylkingin vill að mótuð verði markvissari stefna um dýravelferð á Íslandi og skerpt á eftirliti með aðbúnaði og meðferð dýra. Við viljum gæta að réttindum dýra og veita umráðamönnum þeirra ráðgjöf og fræðslu um dýravelferð og þær lögbundnu skyldur sem fylgja dýrahaldi. Vernda þarf heimkynni villtra dýra þannig að líffræðilegum fjölbreytileika sé ekki ógnað og meta áhrif lofts­lagsbreyt­inga á vist­kerfi íslenskrar náttúru.

Orkumál

Samfylkingin vill sækja fram á sviði grænnar verðmætasköpunar sem grundvallast á nýtingu innlendrar orku í almannaþágu. Hvers kyns ákvarðanir um orkuvinnslu eiga að byggjast á heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja og til hagkvæmni ólíkra nýtingarkosta með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Með rammaáætlun, sem lögfest var í stjórnartíð Samfylkingarinnar, voru skapaðar leikreglur um þetta. Þau lög og annað regluverk þarf að bæta með langtímasjónarmið og rétt komandi kynslóða í huga. Huga þarf að umhverfisjónamiðum þegar kemur að minni virkjunum sem og landsgæðum og aðstæðum en ekki einungis út frá afkastagetu virkjunar.

Samfylkingin vill að meginhluti raforkuframleiðslu á Íslandi verði áfram á hendi ríkis og sveitarfélaga og leggst gegn hvers kyns hugmyndum um einkavæðingu eða uppskiptingu Landsvirkjunar.

Styrkja þarf flutnings- og dreifikerfi raforku til að auka afhendingaröryggi og aflgetu hvarvetna á landinu og tryggja að innviðir standi undir þeim orkuskiptum sem fram undan eru í samgöngum og iðnaði.

Samfylkingin vill jafna að fullu raforkukostnað milli þéttbýlis og dreifbýlis og fyrirbyggja að íbúar á köldum svæðum beri hærri kostnað af hitun húsnæðis en aðrir. Með þessu stuðlum við að byggðajafnrétti og liðkum fyrir atvinnuuppbyggingu í hinum dreifðu byggðum.