Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar
Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
- Inngangur
- Græn uppbygging
- Atvinnustefna
- Vinna og velferð
- Hagkerfi
- Viðskipti og samkeppni
- Vinnumarkaðurinn
- Atvinnulíf
- Skattkerfið
- Hagstjórn
- Fjármálakerfið
- Náttúruauðlindir
- Opinber innkaup
Fjármálakerfi sem þjónar almenningi
Samfylkingin hefur skýra sýn á framtíð fjármálakerfisins og vill að hið opinbera vaki yfir þróun þess. Meginhlutverk fjármálakerfisins er að miðla fjármagni þangað sem það nýtist best með því að sjá fólki og fyrirtækjum fyrir lánsfé. Aukin skilvirkni í kerfinu skilar sér í betri ávöxtun sparifjár og hagstæðari lánakjörum. Fjármálafyrirtæki eru hins vegar engin venjuleg fyrirtæki og almenningur ber að miklu leyti áhættuna af rekstri þeirra stærstu, óháð því hvort þau eru í eigu ríkis eða einkaaðila.
Til að fjármálakerfið þjóni hagsmunum almennings sem best verður það að sæta ströngum reglum og traustu eftirliti af hálfu hins opinbera. Virk samkeppni á fjármálamarkaði er lykilatriði til að draga úr kostnaði við kerfið en mikilvægast er þó að stór fjármálafyrirtæki og bankar séu reknir með langtímasjónarmið og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Þess vegna skiptir eignarhald þeirra höfuðmáli.
Samfylkingin vill tryggja fjölbreytt og dreift eignarhald í bankakerfinu og stuðla að aukinni samkeppni til hagsbóta fyrir almenning. Áreiðanlegasta leiðin til þess væri að fá inn á markaðinn trausta erlenda aðila með reynslu af bankarekstri. Slíkt má telja útilokað á meðan íslenska krónan er gjaldmiðill okkar en með upptöku evru gætu Íslendingar þegar í stað notið góðs af evrópskum fjármálamarkaði.
Huga þarf að heildarskipulagi fjármálakerfisins og gera breytingar. Þrír stórir bankar sem allir eru kerfislega mikilvægir takmarka samkeppni og stuðla að fákeppni óháð eignarhaldi þeirra. Áður en ráðist er í sölu á hlut ríkisins í bönkum,, þarf að svara þeirri spurningu hvernig bankakerfið geti tryggt góða og trausta þjónustu við fólk og fyrirtæki. Þar þurfa leiðarstefin að vera fjölbreytni, samkeppni, öflugt eftirlit, neytendavernd, samfélagsleg ábyrgð og örugg og ódýr innlend greiðslumiðlun.
Frá bankahruni hefur ekki farið fram nauðsynleg almenn umræða um það hvernig best er fyrir almenning að bankakerfið þróist hér á landi. Skapa þarf traustan grundvöll fyrir stefnumörkun með umræðu í samfélaginu. Það að ríkið haldi á svo stórum hluta bankakerfisins sem raun ber vitni skapar ákveðin tækifæri til breytinga á bankakerfinu.
Samhliða örri tækniþróun og nauðsyn grænna fjárfestinga eru augljósar áskoranir til staðar í fjármálaumhverfinu. Vega þarf og meta kosti samfélagsbanka og leitast við að laða að æskilega eigendur fjármálafyrirtækja með þekkingu á bankarekstri. Mikilvægt er að breytt kerfi verði til þess að áhætta í fjárfestingarbankastarfsemi verði áhyggjuefni eigenda fjárfestingarbanka en ekki ríkisins eða almennings. Þar liggur mikilvægur lærdómur af bankahruninu.
Greiðslumiðlun á Íslandi er alltof dýr og er kostnaður við hana hærra hlutfall af landsframleiðslu en í öllum hinum norrænu ríkjunum. Samfylkingin vill ráða bót á þessu og draga úr milliliðakostnaði. Ríkisvaldið verður að hafa frumkvæði að ódýrari greiðslumiðlun fyrir almenning. Nota verður Seðlabankann til að koma því í kring ef viðskiptabankarnir tregðast við að koma innlendri greiðslumiðlun í ásættanlegt horf sem er lágmörkun kostnaðar og að greiðslumiðlunin fari að mestu fram innanlands. Innlend greiðslumiðlun skiptir máli ef aðstæður svipaðar þeim sem var í bankahruninu skapast að nýju.