Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Aukinn jöfnuður

Fátt ræður meiru um lífskjör fólks en framleiðni í hagkerfinu. Aukin framleiðni færir okkur meira fyrir minna og er að jafnaði ávísun á bætt lífskjör almennings til langframa. Þess vegna tekur Samfylkingin tækniframförum og tilraunum til að auka hagkvæmni fagnandi, hvort sem er hjá einkafyrirtækjum eða í opinberum rekstri. Framleiðniaukning er þó til lítils ef ábatinn af henni dreifist ekki með sanngjörnum hætti um samfélagið.

Fyrir þorra Íslendinga skiptir aukinn jöfnuður höfuðmáli þegar kemur að bættum lífskjörum. Auknum tekjujöfnuði má annars vegar ná með jafnari dreifingu tekna á vinnumarkaði og hins vegar með réttlátara skattkerfi og tilfærslum. Hið opinbera ræður miklu um hvort tveggja og þar með um skiptingu arðsins af þjóðarframleiðslunni, enda er það í höndum stjórnvalda að setja markaðnum leikreglur og ákveða skipan skattkerfisins.

Kaupmáttur almennings ræðst þó ekki aðeins af framleiðni og jöfnuði heldur einnig verðlagi. Þess vegna leggur Samfylkingin mikla áherslu á lifandi samkeppni til að halda aftur af okri á markaði í skjóli fákeppni, á hóflega gjaldtöku fyrir almenna opinbera þjónustu og ekki síst á ábyrga hagstjórn sem heldur verðbólgu í skefjum og leiðir þannig af sér stöðugri kaupmátt og lægri vexti.