Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Framsýn og ábyrg efnahagsstefna er ein af undirstöðum jafnaðarstefnunnar

Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum

Lýðræðislegra atvinnulíf

Samfylkingin beitir sér fyrir atvinnulýðræði, valddreifingu í efnahagslífinu og auknum áhrifum vinnandi fólks á vinnuumhverfi sitt og stefnumörkun fyrirtækja og stofnana sem það vinnur hjá. Lýðræðisleg þátttaka starfsmanna á vinnustað og aðild þeirra að stjórnun fyrirtækja getur aukið traust og starfsánægju, dregið úr launabili og stuðlað að aukinni framleiðni og samkeppnishæfni atvinnulífs.

Ísland er eftirbátur ríkja á meginlandi Evrópu í þessum efnum. Því þarf að breyta. Fyrsta skrefið er að fylgja fordæmi Svía, Dana og Þjóðverja og binda í lög rétt starfsmanna stærri fyrirtækja til að velja sína fulltrúa í stjórn þeirra. Samfylkingin telur að lýðræðisvæðing atvinnulífsins og aukin áhrif og eignarhald starfsfólks í fyrirtækjum geti leitt til réttlátara samfélags og valdeflingar vinnandi fólks. Mikilvægt er að breytingarí þessa veru séu útfærðar í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Ólíðandi er að fólk þurfi að óttast um starfsöryggi sitt vegna skoðana, tjáskipta eða þátttöku í verkalýðsbaráttu.