Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Framtíð mannkyns veltur á því að ríki, stór og smá, taki höndum saman um róttækar breytingar á framleiðslu og lifnaðarháttum.

Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Samfylkingin vill að farin verði leið réttlátra umskipta í glímunni við loftslagsvána eins og alþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir.

Ábyrg landnýting og hringrásarhagkerfi

Samfylkingin vill ráðast í kraftmikið átak í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, meðal annars með auknum ríkisstuðningi við landbótaverkefni frjálsra félagasamtaka.

Endurskoða þarf skattaumhverfi bújarða og styrkjakerfi landbúnaðar til að ýta undir ábyrga landnýtingu og gera bændum kleift að einbeita sér í auknum mæli að kolefnisbindingu, endurheimt votlendis, uppgræðslu illa farins lands og nýsköpun í sjálfbærum landbúnaði. Þá vill Samfylkingin draga úr lausagöngu búfjár í áföngum og í samráði við bændur til að sporna gegn gróður- og jarðvegseyðingu.

Samfylkingin leggur áherslu á að raunverulegt hringrásarhagkerfi verði innleitt á Íslandi og dregið með markvissum hætti úr sóun. Vinna þarf að samræmdri flokkun sorps við fyrirtæki og heimili fyrir landið allt, aukinni nýtingu lífræns úrgangs til landgræðslu og landbóta og endurvinnslu og endurnýtingu plastúrgangs. Þá er löngu tímabært að komið verði skikkan á frárennslismál í öllum landshlutum. Brýnt er að ríki og sveitarfélög fjárfesti af krafti í viðunandi skólphreinsun og dælingu til að verja strendur Íslands og hafið kringum landið.