Loftslag, náttúra og umhverfi

Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslag, náttúra og umhverfi

Loftslagsváin og rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni er mesta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Atvinnulíf og umhverfismál

Sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta eru mikilvægar atvinnugreinar fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag og skapa miklar tekjur fyrir þjóðarbúið og fjölda starfa. Um leið losa þessar atvinnugreinar mikið af gróðurhúsalofttegundum. Nauðsynlegt er að draga markvisst úr þeirri losun til að standa við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum og styrkja framtíðarstoðir þessara greina.  

Samfylkingin vill vinna markvisst að orkuskiptum í sjávarútvegi og tryggja að innviðir og rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja styðji við þau. Miklu skiptir að bruni og flutningur á svartolíu verði bannaður á norðurslóðum líkt og Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) hefur gert sunnan 66. gráðu suðlægrar breiddar. Ísland á að vinna að þessu markmiði á vettvangi IMO, Norðurskautsráðsins, á vettvangi norrænnar samvinnu og innan Evrópska efnahagssvæðisins. Fyrsta skrefið er stöðva allan svartolíubruna innan 12 mílna landhelginnar.

Landbúnaður og landnotkun þurfa að samrýmast markmiðum í loftslagsmálum og miðast við verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni. Samfylkingin vill efla sjálfbæra matvælaframleiðslu og ráðast í gagngera endurskoðun á skatta- og styrkjakerfi landbúnaðar með það að markmiði að valdefla bændur til fjölbreyttari og sjálfbærari nýtingar lands, stuðla að nýsköpun í greininni og ýta undir uppgræðslu og kolefnisbindingu. Samfylkingin vill draga úr lausagöngu búfjár á viðkvæmum svæðum í samráði við bændur til að sporna gegn gróður- og jarðvegseyðingu og ráðast í kraftmikið átak í landgræðslu, friðun gegn ofbeit og endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis. Rannsaka þarf árangur opinbers stuðnings við skógrækt eftir uppbyggingu síðustu áratuga miðað við loftslagsávinning og áhrif á náttúru.

Samfylkingin leggur áherslu á aðgerðir til að draga úr losun frá ferðaþjónustu. Innviðauppbygging, rafvæðing hafna, orkuskipti og efling almenningssamgangna eru mikilvægur liður í þeirri vegferð, sem og aðgerðir í úrgangsmálum og upplýsingagjöf til ferðamanna um leiðir til að draga úr kolefnisfótspori.

Samfylkingin vill efla byggingarannsóknir og styðja í  auknum mæli við nýsköpun á sviði sjálfbærra lausna í byggingariðnaði.

Samfylkingin vill styrkja umgjörð fiskeldis á Íslandi, setja atvinnugreininni skýran ramma og auka eftirlit með henni. Taka verður af festu á slysasleppingum í fiskeldi og tryggja að atvinnugreinin uppfylli ströngustu umhverfiskröfur svo hún geti starfað í sátt við náttúru, lífríki og samfélag. Gangi það ekki eftir er atvinnugreininni sjálfhætt.