Loftslag, náttúra og umhverfi

Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslag, náttúra og umhverfi

Loftslagsváin og rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni er mesta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Íslensk náttúra og auðlindir hennar

Náttúruvernd

Það er afstaða Samfylkingarinnar að náttúruauðlindir skuli nýta á forsendum sjálfbærrar þróunar og almannahagsmuna. Stefnumótun og ákvarðanataka í tengslum við auðlindanýtingu á að vera byggð á framtíðarhagsmunum en ekki skammtímagróða. 

Samfylkingin leggur áherslu á varðveislu og viðhald náttúrugæða með skýrum lagaramma og eftirliti auk rannsóknar og vöktunar. Náttúra Íslands, með öllum sínum sérkennum er verðmæt, en takmörkuð auðlind. Íslensk náttúra er einstök á heimsmælikvarða og eru 42% af lítt snortnum víðernum Evrópu á Íslandi, sem skapar skyldur gagnvart heimsbyggðinni og komandi kynslóðum. Samfylkingin vill efla verndun mikilvægra landslagsheilda, í samræmi við Landslagssamning Evrópu. Verndun náttúrunnar er ein tegund nýtingar, og í einhverjum tilfellum sú sem skilar mestum verðmætum, efnislegum og huglægum, fyrir samfélagið allt. 

Varúðar- og mengunarbótarreglurnar eru óaðskiljanlegur hluti náttúruverndar og eiga að vera leiðarljós efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda. Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun) er lykilverkfæri stjórnvalda við ákvarðanir um orkuöflun, hvort sem um er að ræða nýtingu vatns, jarðvarma, vinds eða annarra orkukosta, þannig að tryggð sé verndarnýting mikilvægra náttúrusvæða sem ella kæmu til greina til orkunýtingar.

Samfylkingin styður stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í nánu samráði við nærsamfélög og alla hagaðila um framkvæmd og útfærslu. Þá er tímabært að huga að samræmdri gjaldtöku á friðlýstum svæðum til þess að standa straum af kostnaði við uppbyggingu þeirra, vernda náttúruauðævi og koma í veg fyrir ofurálag á viðkvæmum svæðum. Þannig er gætt að náttúruvernd og ekki síður að upplifun þeirra sem njóta íslenskrar náttúruundra. Tryggja þarf að réttur almennings til ferðar og dvalar um land sitt sé sterkur og að hann sé virtur, án þess að gengið sé á eðlilegar nytjar bænda og landeigenda.

Lífríkið

Samfylkingin vill stuðla að verndun líffræðilegrar fjölbreytni sem er undirstaða náttúruauðlinda sem afkoma samfélaga byggir á. Ágangur mannsins á auðlindir jarðar hefur dregið úr líffræðilegum fjölbreytileika og er verndun og endurheimt fjölbreyttra vistkerfa og hæfni þeirra til að þjóna tilgangi sínum grundvallarforsenda velsældar. Efla verður vinnu við markmið Íslands um líffjölbreytni í samræmi við Kunming-Montréal-samninginn. Mikilvægt er að aðgerðir í loftslagsmálum og aðgerðir til verndar líffræðilegri fjölbreytni séu samþættar.

Hafið umhverfis Ísland og strendur landsins geyma vistkerfi sem okkur ber að standa vörð um. Loftslagsbreytingar valda súrnun sjávar sem auk áhrifa á vistkerfin geta haft neikvæð áhrif  á nýtingu sjávarauðlinda sem eru mikilvægar efnahag þjóðarinnar. Samfylkingin vill beita sér fyrir stórauknum rannsóknum á þeim hættum er steðja að lífríki sjávar og strandsvæða, í samstarfi við aðrar strandþjóðir.  

Samfylkingin vill banna hvalveiðar með lagasetningu á Alþingi.

 Orku- og auðlindamál

Samfylkingin leggur áherslu á að stefnumótun og ákvarðanataka um orkuframleiðslu og -nýtingu grundvallist á sjálfbærri þróun með almannahagsmuni að leiðarljósi. Hvers kyns ákvarðanir um orkuvinnslu eiga að byggjast á heildstæðu umhverfis- og hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja og þjóðhagslegrar hagkvæmni ólíkra nýtingarkosta. Við þetta mat skal lögð áhersla á verðmæti náttúru Íslands, beint og óbeint, með langtímasjónarmið í huga. Við virkjun nýrra orkugjafa, úr vindi, frá sól eða sjávarföllum, verður í upphafi að móta stefnu sem tekur á þessum þáttum. Það sama á við um aðra auðlindanýtingu. Ákvarðanir um orkuvinnslu eiga að byggjast á leikreglum rammaáætlunar og á víðtæku samráði við almenning og félagasamtök samkvæmt leiðsögn Árósasáttmálans.

Tryggja þarf að auðlindir séu nýttar í þágu þjóðarinnar, að gjaldtaka af auðlindanýtingu sé eðlileg og réttlát og að ábati af auðlindanotkun renni í sameiginlega sjóði landsmanna. Samfylkingin vill að meginhluti raforkuframleiðslu á Íslandi verði áfram á hendi ríkis og sveitarfélaga og leggst gegn hvers kyns hugmyndum um einkavæðingu eða uppskiptingu Landsvirkjunar.

Samfylkingin vill jafna að fullu raforkukostnað milli þéttbýlis og dreifbýlis og fyrirbyggja að íbúar á köldum svæðum beri hærri kostnað af hitun húsnæðis en aðrir. Með þessu stuðlum við að byggðajafnrétti og liðkum fyrir atvinnuuppbyggingu í hinum dreifðu byggðum.

Styrkja þarf flutnings- og dreifikerfi raforku til að auka afhendingaröryggi og aflgetu og til að tryggja að kerfið standi undir auknu álagi vegna orkuskipta. Gæta skal að orkusparnaði við allt skipulag og aðgerðir.