Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Framtíð mannkyns veltur á því að ríki, stór og smá, taki höndum saman um róttækar breytingar á framleiðslu og lifnaðarháttum.

Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Samfylkingin vill að farin verði leið réttlátra umskipta í glímunni við loftslagsvána eins og alþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir.

Hraðari orkuskipti

Til þess að ná árangri í loftslagsmálum þarf að ráðast í markvissar aðgerðir til að hraða orkuskiptum í samgöngum og iðnaði, á sjó, landi og í innanlandsflugi. Sanngjörn gjaldtaka á losun kolefnis verður mikilvægur liður í þessu en brýnt er að slík gjöld séu útfærð í samráði við samtök launafólks, bitni ekki á tekjulægri hópum og að heildaráhrif komi ekki ójafnt niður á fólki eftir því hvar á landinu það býr.

Samfylkingin vill styðja við uppbyggingu rafhleðslu-, metan- og vetnisstöðva um allt land svo raunhæft verði að hætta nýskráningu bensín- og dísilfólksbíla frá og með árinu 2025. Einnig er brýnt að mótuð verði raunhæf en metnaðarfull áætlun um að hætta nýskráningu flutningabíla, hópferðabíla og vinnuvéla sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti. Loks þarf að innleiða hvata og/eða kvaðir sem tryggja að bílaleigur leigi í auknum mæli út hreinorkubíla í stað bensín- og dísilbíla.

Samhliða þessu þarf að styrkja flutnings- og dreifikerfi rafmagns svo að kerfið geti staðið undir auknu álagi vegna orkuskiptanna.