Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum - strax!

Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Hamfarahlýnun af mannavöldum kallar á stórtækar aðgerðir strax og nýja hugsun á öllum sviðum samfélagsins. Markmið Samfylkingarinnar um fulla atvinnu og efnahagslega endurreisn eftir COVID helst í hendur við stefnu okkar um græna umbyltingu í íslensku atvinnulífi.

Grænn fjárfestingarsjóður

Samfylkingin vill styðja við þróun loftslagslausna og græns hátækniiðnaðar og auka vægi loftslagsvænnar atvinnuuppbyggingar á Íslandi.

Þetta verður meðal annars gert með stofnun græns fjárfestingarsjóðs í eigu hins opinbera sem leitar eftir samstarfi við einkafjárfesta og sveitarfélög, tekur mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og af vísinda- og tæknistefnu Íslands í allri sinni starfsemi og ýtir undir góða stjórnarhætti í félögum sem hann fjárfestir í.

Á meðal verkefna sem grænn fjárfestingarsjóður gæti horft til er lífræn eldsneytisframleiðsla, svo sem á grænu vetni til útflutnings, tæknilausnir til kolefnisföngunar- og förgunar, nýsköpun í matvælaframleiðslu og fjárfestingar vegna orkuskipta í iðnaði.