Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Stærsta áskorunin sem mannkynið stendur frammi fyrir er að vinna gegn loftslagsvánni og draga sem verða má úr áhrifum hennar.

Ábyrg landnýting og hringrásarhagkerfi

Samfylkingin leggur áherslu á að raunverulegt hringrásarhagkerfi verði innleitt á Íslandi og dregið með markvissum hætti úr sóun. Vinna þarf að samræmdri flokkun sorps við fyrirtæki og heimili fyrir landið allt, aukinni nýtingu lífræns úrgangs til landgræðslu og landbóta og endurvinnslu og endurnýtingu plastúrgangs. Þá er löngu tímabært að komið verði skikkan á frárennslismál í öllum landshlutum. Brýnt er að ríki og sveitarfélög fjárfesti af krafti í viðunandi skólphreinsun og dælingu til að verja strendur Íslands og hafið kringum landið. Tryggja þarf að frárennslismál séu í lagi í öllum landshlutum. Nær allt íslenskt skólp fer óhreinsað beint út í sjó. Þannig fer mikið magn af spilliefnum og örplasti út í náttúruna þar sem það veldur skaða. Brýnt er að ríkið aðstoði sveitarfélög og þá sérstaklega sveitarfélög á viðkvæmum náttúrusvæðum við að koma í  veg fyrir losun spilliefna og uppsetningu skólphreinsunar. 

Við erum eyríki sem flytur inn meginþorra neysluvara almennings og okkur ber að hugsa í lausnum sem taka mið af hringrásarhagkerfinu. Við þurfum að stórefla endurnýtingu og endurvinnslu og finna aðrar leiðir en að flytja inn vörur og senda svo burt sem sorp til endurvinnslu í öðrum löndum. Samfylkingin vill lögfesta skilvirkt kerfi sem ívilnar þeim aðilum sem auka líftíma þess sem framleitt er, dragi úr notkun hráefna og sporni við sóun. Sveitarfélög og einkaaðilar þurfa að huga betur að samnýtingu hráefna og varnings sem þegar hefur verið framleiddur. Efnahagslegir hvatar verði nýttir til að hvetja aðila til að minnka vistspor á skilvirkan hátt. Stofnun iðn- og þróunarklasa er raunhæf leið til þess að efla nýsköpun á þessu sviði og samnýta þekkingu og styrkja smærri fyrirtæki og samfélagsverkefni á sviði umhverfismála og hringrásarhagkerfis.