Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Stærsta áskorunin sem mannkynið stendur frammi fyrir er að vinna gegn loftslagsvánni og draga sem verða má úr áhrifum hennar.

Landnýting og landbúnaður

Samfylkingin vill ráðast í kraftmikið átak í landgræðslu, skógrækt þar sem hún á við og endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, meðal annars með auknum ríkisstuðningi við landbótaverkefni frjálsra félagasamtaka.

Ganga þarf lengra til að skattskattaumhverfi bújarða og styrkjakerfi landbúnaðar ýti undir ábyrga landnýtingu og gera bændum kleift að einbeita sér í auknum mæli að kolefnisbindingu, uppgræðslu og nýsköpun í sjálfbærum landbúnaði. Þá vill Samfylkingin draga úr lausagöngu búfjár í samráði við bændur til að sporna gegn gróður- og jarðvegseyðingu.

Samfylkingin vill ganga í gagngera endurskoðun á skatta- og styrkjakerfi landbúnaðar og er það gert til þess að valdefla bændur til þess að gera nýtingu landsins vistvænni, fjölbreyttari og stuðla að nýsköpun í greininni. Sporna þarf við of mikilli samþjöppun sem leiði til einsleitrar framleiðslu.  Tryggja þarf líffræðilega fjölbreytni á landinu og stuðla að landgræðslu og endurheimt votlendis og annarra vistkerfa.

Íslenskir neytendur verða sífellt upplýstari, það er því krafa að þeir fái upprunavottun, upplýsingar um innihald og raun kolefnisspor afurðanna og geti þannig tekið upplýstar ákvarðanir.  Þarna vantar íslenskar rannsóknir og þær vill Samfylkingin að ráðist verði í. 

Samfylkingin vill veita fjármagni í áframhaldandi skráningu og flokkun landbúnaðarlands til að gera notendum betri grein fyrir raunverulegum landgæðum og möguleikum til vistvænni búskapar.