Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Stærsta áskorunin sem mannkynið stendur frammi fyrir er að vinna gegn loftslagsvánni og draga sem verða má úr áhrifum hennar.

Metnaðarfyllri loftslagsmarkmið

Samfylkingin vill að stefnt verði að minnst 60 prósenta samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, svo áætlanir okkar standist samanburð við loftslagsmarkmið annarra norrænna ríkja, og að Ísland verði kolefnisneikvætt frá og með árinu 2040. Þessi markmið verði fest í lög án tafar og lagðar fram tíma- og tölusettar aðgerðaáætlanir með áfangamarkmiðum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Samfylkingin vill að lagafrumvörp verði metin með tilliti til loftslagsáhrifa rétt eins og þau eru metin með tilliti til fjárhagslegra áhrifa. Við viljum að öll sveitarfélög geri sér metnaðarfulla áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem er að minnsta kosti með sömu markmið og ríkið. Brýnt er að viðhaft verði fullt gagnsæi í samvinnu stjórnvalda við ESB-ríkin og staðið við fyrirheit og tímasetningar.

Styrkja þarf stjórnsýslu loftslagsmála og tryggja fjárstyrk og mannafla til að sinna nauðsynlegri greiningarvinnu, samhæfingu verkefna og eftirfylgni. Loftslagsráð á ekki að starfa á vegum ríkisstjórnar á hverjum tíma heldur að gegna sjálfstæðu aðhalds- og eftirlitshlutverki gagnvart stjórnvöldum.

Samfylkingin vill að Íslendingar standi að fullu við tímasettar alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Ekki má einblína á þá losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda samkvæmt þeim skuldbindingum heldur verður einnig að greina raunverulega heildarlosun, þar sem landnotkun og stóriðja eru tekin með í reikninginn, og setja metnaðarfull markmið um samdrátt slíkrar losunar.