Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Stærsta áskorunin sem mannkynið stendur frammi fyrir er að vinna gegn loftslagsvánni og draga sem verða má úr áhrifum hennar.

Náttúran og bann við olíuvinnslu

Íslenskt samfélag hefur náð langt í nýtingu innlendrar orku, sem er að miklu leyti endurnýjanleg, eftir mikla uppbyggingu á síðustu öld. Þessi staða hefur þó fengist með verulegum fórnum á náttúrusvæðum og umhverfi.

Samfylkingin styður virkjun vindorku sé gætt að áhrifum á umhverfi og náttúru. Einnig að tryggt verði að umhverfismat liggi ávallt fyrir áður en virkjunarframkvæmdir hefjast og að víðtæk sátt sé við nágranna og aðra hlutaðeigandi. Samfylkingin vill einnig beita sér fyrir því  að lagaumhverfi vindorkunýtingar verði mótað þannig að eðlileg auðlindarenta af orkuframleiðslunni renni í sameiginlega sjóði landsmanna.

Varúðarreglan um að náttúran skuli ætíð njóta vafans á að vera óaðskiljanlegur hluti af efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda og orkunýting verður að byggjast á heildstæðu hagsmunamati og víðtæku samráði samkvæmt leikreglum rammaáætlunar.

Samfylkingin styður stofnun Miðhálendisþjóðgarðs og vill að málið verði unnið í eins breiðri sátt og unnt er

Hafið umhverfis Ísland og strendur landsins geyma vistkerfi sem okkur ber að standa vörð um. Loftslagsbreytingar valda súrnun sjávar sem auk áhrifa á vistkerfin geta haft neikvæð áhrif  á nýtingu sjávarauðlinda sem eru mikilvæg efnahag þjóðarinnar. Hvalir eru einir öflugustu náttúrulegu kolefnisfangarar sem fyrir finnast í náttúrunni og hringrás hvala og svifs er ein af meginstoðum lífs í hafinu. Samfylkingin vill banna hvalveiðar.

Samfylkingin vill beita sér fyrir stórauknum rannsóknum á þeim hættum er steðja að lífríki sjávar og strandsvæða, í samstarfi við aðrar strandþjóðir. 

Aldrei skal borað eftir jarðefnaeldsneyti á íslensku yfirráðasvæði og festa þarf bann við slíku í lög.