Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum - strax!

Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Hamfarahlýnun af mannavöldum kallar á stórtækar aðgerðir strax og nýja hugsun á öllum sviðum samfélagsins. Markmið Samfylkingarinnar um fulla atvinnu og efnahagslega endurreisn eftir COVID helst í hendur við stefnu okkar um græna umbyltingu í íslensku atvinnulífi.

Náttúran á að njóta vafans

Íslenskt samfélag hefur náð langt í nýtingu innlendrar orku, sem er að miklu leyti endurnýjanleg, eftir mikla uppbyggingu á síðustu öld, en þessi staða hefur fengist með verulegum fórnum á náttúrusvæðum og umhverfi.

Varúðarreglan, um að náttúran skuli ætíð njóta vafans, á að vera óaðskiljanlegur hluti af efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda og orkunýting verður að byggjast á heildstæðu hagsmunamati og víðtæku samráði samkvæmt leikreglum rammaáætlunar.

Samfylkingin styður stofnun Miðhálendisþjóðgarðs og vill að málið verði unnið í eins og breiðri sátt og unnt er.