Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslag, náttúruvernd og umhverfi

Stærsta áskorunin sem mannkynið stendur frammi fyrir er að vinna gegn loftslagsvánni og draga sem verða má úr áhrifum hennar.

Bylting í almenningssamgöngum

Orkuskipti fyrir samgöngur á landi duga skammt ef ná á markmiðum Parísarsáttmálans. Við þurfum ekki síður að draga með markvissum hætti úr notkun einkabílsins með því að efla almenningssamgöngur og þétta byggð þar sem það á við. Brýnt er að framkvæmdum vegna Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu og uppbyggingu stofnleiða fyrir hjólreiðar verði flýtt eins og kostur er, sem og öðrum framkvæmdum í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem eru mannaflafrek og skila miklum loftslagsávinningi. Þá vill Samfylkingin að stjórnvöld framkvæmi úttekt á heilsufarslegum áhrifum umferðarmengunar.

Samfylkingin vill að hugmyndafræði Borgarlínunnar verði nýtt til uppbyggingar stærra samgöngunets sem þjónar landinu öllu. Þannig verður einfalt, aðgengilegt og þægilegt að ferðast um Ísland án þess að eiga eða leigja einkabíl. Til þess þarf að koma upp heildstæðu neti almenningssamgangna sem nær yfir landið allt, svo sem með rútum sem knúnar eru vistvænum innlendum orkugjafa og nema staðar við helstu þéttbýliskjarna landsins. Til að slíkt samgöngukerfi sé notendavænt þurfa stöðvar að vera þægilegar óháð veðri, tengdar göngu- og hjólastígum og bjóða aðgang að örflæðislausnum á borð við reiðhjól, rafmagnshjól og rafskutlur. Með því að gera ákjósanlegt fyrir ferðamenn að nota slíkt kerfi gæti Ísland á næstu árum orðið eitt af vistvænustu ferðalöndum heims.

Samfylkingin vill að stjórnvöld beiti sér fyrir því að rafmagns- og tvinnflugvélar verði nýttar í innanlandsflugi og að mótuð verði metnaðarfull stefna um rafvæðingu innanlandsflugs og annarra styttri flugferða. Tryggja þarf öflugar almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Kanna þarf til hlítar kosti þess að leggja lest frá Reykjavík til Keflavíkur.