Sterk almenn velferðarþjónusta

Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla

Sterk almenn velferðarþjónusta

Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.

Útrýmum fátækt

Samfylkingin vill útrýma fátækt á Íslandi. Fátækt er brot á mannréttindum og afsprengi pólitískra ákvarðana. Í einu ríkasta samfélagi heims á enginn að þurfa að reiða sig á ölmusu. Stuðningur við fátækt fólk skilar mestum árangri þegar hann hvetur til virkni og samfélagslegrar þátttöku og grundvallast á notendasamráði, valdeflingu og virðingu. Samfylkingin styður það að Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna 2030 um hvernig eigi að útrýma fátækt. Við eigum að kostnaðargreina afleiðingar fátæktar og hvað kostar að útrýma fátækt.

Til að útrýma fátækt á Íslandi þurfum við í fyrsta lagi að sjá til þess að velferðarsamfélagið standi undir nafni með því að halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu og fullnægjandi félagslegum tryggingum. Í öðru lagi verðum við að kortleggja sérstaklega hvaða fólk það er sem býr við fátækt vegna þess að það fellur á milli kerfa. Í þriðja lagi er nauðsynlegt að við leggjum allt kapp á að sem flest okkar geti verið í vinnu við hæfi auk þess að stuðla að virkni og samfélagslegri þátttöku allra.

Meðal þeirra hópa sem eiga mest á hættu að lenda í fátækt á Íslandi eru einstæðir foreldrar í láglaunastörfum, öryrkjar, eldri borgarar með lítil eftirlaunaréttindi og innflytjendur. Velferðarþjónustan þarf að styðja þessa hópa betur. Félagsleg einangrun eykur hættuna á að fólk festist í fátækt. Þess vegna vill Samfylkingin liðka fyrir atvinnuþátttöku innflytjenda, taka betur á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd og leggja sérstaka áherslu á að bjóða fólki tækifæri til samfélagsþátttöku. Sveitarfélög eru lykillinn að samfélaginu fyrir fólk sem flytur hingað og þétt samstarf stjórnvalda og samfélags er nauðsyn til að vel takist til fyrir okkur öll. 

Þótt fátækt finnist í öllum aldurshópum í íslensku samfélagi geta efnahagsleg og félagsleg áhrif fátæktar haft sérlega slæmar og langvinnar afleiðingar fyrir börn. Þess vegna vill Samfylkingin styðja myndarlega við uppvöxt barna. Brýnt er að leita allra leiða til að rjúfa vítahring fátæktar og takmarkaðra tækifæra barna.