Sterk almenn velferðarþjónusta

Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla

Sterk almenn velferðarþjónusta

Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.

Skaðaminnkun og regluvæðing neysluskammta

Samfylkingin vill endurskoða refsiramma vímuefnalöggjafarinnar og auka stuðning og aðstoð við þau sem glíma við vímuefnavanda. Vímuefnaneysla er heilbrigðisvandamál og varsla neysluskammta á ekki að vera refsiverð.

Stjórnvöld eiga að styðja við jaðarsetta hópa og vinna út frá skaðaminnkandi nálgun með ráðgjöf og stuðningi, nálaskiptaþjónustu, hjálp við að draga úr líkum á smiti og sýkingum og aðstoð við að komast í sértækari heilbrigðisþjónustu. Aðgengi að gagnreyndri og gjaldfrjálsri meðferð er mikilvægt fyrir fólk með vímuefnavanda en skaðaminnkun tekur á þeirri staðreynd að mörg sem nota vímuefni eru ófær um eða vilja ekki hætta notkun þeirra á tilteknum tíma. Því er mikilvægt að bjóða þjónustu og stuðning sem stuðlar að því að lágmarka áhættu og skaða af áframhaldandi notkun vímuefna fyrir einstakling, fjölskyldu og samfélag. Húsnæði fyrst er mikilvægur þáttur í skaðaminnkandi þjónustu. Mikilvægt er að samþætta þar félagslega þjónustu og heilbrigðisþjónustu.