Sterk almenn velferðarþjónusta
Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla
Sterk almenn velferðarþjónusta
Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í velferðarþjónustu
- Inngangur
- Félagslegar tryggingar
- Fátækt
- Húsnæði
- Fjölskyldan
- Eldri borgarar
- Fatlað fólk
- Heilbrigðisþjónusta
- Skaðaminnkun og regluvæðing neysluskammta
- Heilbrigðisstarfsfólk
- Lýðheilsa
- Endurhæfing og virðing við fanga
Lýðheilsa, heilsuefling og forvarnir
Til að sem flest í íslensku samfélagi njóti hreysti og heilbrigðis er mikilvægt að fyrirbyggja heilsuleysi eftir því sem það er unnt, svo sem með áherslu á lýðheilsu, forvarnir og heilsueflingu í daglegu lífi. Þetta er mikilvægt að hafa í huga á öllum sviðum samfélagsins, meðal annars í heilbrigðisþjónustunni sjálfri en ekki síður á vinnustöðum og menntastofnunum, í umhverfismálum og við skipulag byggðar.
Samfylkingin vill ýta undir heilsusamlega lífshætti með því að auðvelda fólki hreyfingu og hollt mataræði og stuðla að virkri þátttöku allra í samfélaginu. Andleg og líkamleg heilsa haldast í hendur. Meðal annars þess vegna er aukin sálfræði- og geðheilbrigðisþjónusta eitt mikilvægasta verkefni okkar í heilbrigðismálum. Bjóða á sálfræðiþjónusta í skólum og stuðla áfram að aukinni umræðu og fræðslu um andlega heilsu. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu þarf að tryggja allan sólarhringinn um land allt. Búsetukostir eldra fólks og fatlaðs fólks eiga að miðast sérstaklega við það að auka tækifæri til félagslífs, tómstundastarfs og útivistar og tryggja gott aðgengi að heilsugæslu og annarri heilsutengdri þjónustu.
Við viljum takast á við fíknisjúkdóma í góðu samstarfi við frjáls félagasamtök með áherslu á forvarnir, faglega meðferð og endurhæfingu og bjóða skaðaminnkandi úrræði þegar þess þarf á forsendum hvers og eins. Efla þarf úrræði fyrir jaðarsetta hópa þegar kemur að fíknimeðferð, svo sem fyrir fatlað fólk, fólk með geðrænar áskoranir og fólk af erlendum uppruna.