Sterk almenn velferðarþjónusta

Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla

Sterk almenn velferðarþjónusta

Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.

Víðtækar tryggingar gegn áföllum og fátækt

Á meðal mikilvægustu sigra íslenskra jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingar er tilurð víðtækra félagslegra trygginga sem tryggja lífsafkomu okkar gegn áföllum og fátækt, svo sem vegna atvinnuleysis, skertrar starfsgetu eða að loknum formlegum starfsferli. Við eigum öll rétt á mannsæmandi framfærslu og frelsi undan ótta um lífsafkomu

Samfylkingin lítur á það sem eina af meginskyldum sínum í stjórnmálum að standa vörð um kerfi atvinnuleysis- og almannatrygginga á Íslandi. Það eru mikil verðmæti fólgin í þessum kerfum en því miður hafa þau þróast til verri vegar á undanförnum árum. Nú er verk að vinna. Við viljum styrkja atvinnuleysis- og almannatryggingar til að þær geti þjónað tilgangi sínum með fullnægjandi hætti. það þarf að kostnaðargreina lífeyriskerfið eins og það er í dag. Endurhæfingalífeyrir og örorkulífeyri verði aðgreindir þannig að hægt verði að hækka örorkulífeyri þannig að fólk geti lifað sómasamlegu lífi. Endurhæfingarlífeyrir verði með þeim hætti að hann geti verið greiddur í fleiri ár en sé ekki einskorðaður við 36 mánuði til dæmis ef fólk er í námi í endurhæfingu.

Samfylkingin vill að greiðslur atvinnuleysis- og almannatrygginga tryggi mannsæmandi framfærslu og hækki árlega í samræmi við raunverulega launaþróun í landinu. Því hefur farið fjarri síðustu ár. Við viljum ávallt stuðla að fullri atvinnu á Íslandi en stöndum líka fast á réttindum launafólks til atvinnuleysistrygginga þegar það finnur ekki vinnu við hæfi.

Almannatryggingakerfið viljum við endurskoða í heild sinni með það fyrir augum að móta betra og réttlátara kerfi. Aðalatriðið er að vinda ofan af kjaragliðnun undangenginna ára með því að hækka grunnbætur almannatrygginga en einnig er þörf á að draga úr ýmsum þeim hindrunum, skerðingum, skilyrðingum, bið og eftirliti sem gerir almannatryggingakerfið of þungt í vöfum. Samfylkingin vill ráðast af krafti gegn alltof skörpum tekjutengingum almannatrygginga. Við leggjum sérstaka áherslu á að hækka frítekjumark öryrkja og draga verulega úr vinnuletjandi skerðingum, því markmiðið er að sem flest geti verið í vinnu við hæfi.

Félagsþjónusta sveitarfélaga er einn mikilvægasti  þátturinn í öflugu velferðarkerfi. Velferðarþjónusta sveitarfélaga þarf að hafa fjárstyrk og mannafla til að veita fólki stuðning þegar á þarf að halda um allt land.  Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er neyðaraðstoð sem grípur þá sem öryggisnet ríkisins nær ekki til. Mikilvægt er að stjórnvöld samþætti betur og einstaklings miði þjónustu við fólk í þessum erfiðu aðstæðum og auðveldi þeim leið til vinnu og virkni.