Sterk almenn velferðarþjónusta
Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla
Sterk almenn velferðarþjónusta
Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í velferðarþjónustu
- Inngangur
- Félagslegar tryggingar
- Fátækt
- Húsnæði
- Fjölskyldan
- Eldri borgarar
- Fatlað fólk
- Heilbrigðisþjónusta
- Skaðaminnkun og regluvæðing neysluskammta
- Heilbrigðisstarfsfólk
- Lýðheilsa
- Endurhæfing og virðing við fanga
Bætum hag barna og foreldra
Samfylkingin vill búa nýjum kynslóðum á Íslandi eins góð lífsskilyrði og unnt er allt frá barnsaldri. Þar gegna menntastofnanir og velferðarþjónustan lykilhlutverki. Við viljum styðja myndarlega við uppvöxt barna, létta undir með foreldrum og sjá til þess að sveigjanleiki á vinnumarkaði og stytting vinnuviku gefi gott svigrúm til samveru barna og foreldra. Þröngur fjárhagur ungs fólks má ekki halda aftur af möguleikum þess til barneigna og ekkert barn á að búa við fátækt eða skert tækifæri til náms og frístunda vegna fjárhagsstöðu foreldra sinna.
Jafnaðarmenn vilja gera barnabótakerfið þannig úr garði að það þoli samanburð við það sem best gerist á Norðurlöndunum. Í því skyni þarf að afnema eða draga stórlega úr tekjutengingu barnabótanna og hverfa frá því fyrirkomulagi að þær nái nánast eingöngu til lágtekjufólks og beri keim af fátækrahjálp fyrri tíma. Barnabætur eru ígildi eftirágreidds skattafsláttar til barnafjölskyldnanna og það á að vera viðmið um upphæð þeirra að þær dugi til að gera framfærslukostnað allra barna tekjuskattfrjálsan.
Árum saman hefur Samfylkingin barist fyrir betra og lengra fæðingarorlofi og varð tólf mánaða orlof að lögum undir forystu flokksins árið 2012. Við viljum lengja fæðingarorlofið í átján mánuði, hækka hámarksgreiðslur í samræmi við launaþróun og kveða á um að greiðslur upp að lágmarkslaunum haldist óskertar. Einnig þarf að hækka fæðingarstyrki námsmanna og annarra sem ekki eiga rétt á fæðingarorlofi.
Forverar okkar í stjórnmálum leiddu uppbyggingu almennra leikskóla sem hafa stórbætt hag barna og foreldra á Íslandi. Samfylkingin er stolt af þessari arfleifð. Við viljum brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, sem kallar á nána samvinnu ríkis og sveitarfélaga um fjölgun fagfólks og bætt starfsumhverfi, frekari lengingu fæðingarorlofs og áframhaldandi uppbyggingu nýrra leikskóla þar með talið ungbarnadeilda.
Samfylkingin vill tryggja framfærslu og réttindi barna sem hafa misst foreldra, efla stuðning við fötluð börn, langveik börn og börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik auk þess að útrýma biðlistum barna og ungmenna sem bíða eftir greiningu og úrræðum við hæfi. Samfylkingin vill stórauka snemmtækan stuðning við börn, einkum á fyrstu árum í lífi þeirra. Viðeigandi úrræði þurfa að vera aðgengileg fyrir börn og ungt fólk með margþættan félagslegan vanda, svo sem áfengis- og vímuefnavanda. Loks viljum við bjóða öllum börnum upp á heilsueflandi umhverfi og heilsusamlegar skólamáltíðir þeim og forsjáraðilum þeirra að kostnaðarlausu.