Sterk almenn velferðarþjónusta

Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla

Sterk almenn velferðarþjónusta

Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.

Réttindi fatlaðs fólks – fullt aðgengi og sjálfstætt líf

Samfylkingin vill að réttindi fatlaðs fólks séu virt í hvívetna á Íslandi. Það kallar á fullt aðgengi á öllum sviðum samfélagsins og að fötluðu fólki séu tryggð tækifæri til sjálfstæðs lífs. Við krefjumst þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og honum fylgt eftir með markvissum aðgerðum, meðal annars fullri fjármögnun stuðningsþjónustu og samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Áfram þarf að vinna að viðhorfsbreytingu í samfélaginu gagnvart réttindum fatlaðs fólks og gegn hvers kyns mismunun og fordómum í þeirra garð.

Öll uppbygging og skipulag skal taka mið af algildri hönnun. Samfylkingin vill tryggja rétt fatlaðs fólks til húsnæðis í samræmi við eigin þarfir og óskir auk félagslegrar þjónustu og stuðnings sem gerir þeim kleift að reka eigin heimili og stuðlar að fullri þátttöku í samfélaginu. Ryðja þarf úr vegi hömlum á aðgengi að mikilvægum stofnunum, svo sem skólum og heilbrigðiskerfi, og tryggja að fatlað fólk geti tekið virkan þátt í félagsmálum og stjórnmálastarfi og á vinnumarkaði þar sem fjölbreytt störf þurfa að bjóðast. Þau sem ekki geta unnið launastörf eiga að geta fengið hvatningu og stuðning til annars konar iðju og tómstunda sem veita lífsfyllingu og ánægju.