Sterk almenn velferðarþjónusta

Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla

Sterk almenn velferðarþjónusta

Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.

Jafnt aðgengi að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á

Eitt heilbrigðiskerfi fyrir alla er einn veigamesti einstaki þátturinn í sterkri almennri velferðarþjónustu. Samfylkingin vil sterkt opinbert heilbrigðiskerfi, það þýðir jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla, óháð efnahag og búsetu, sem felur einnig í sér að gjaldtöku sé ávallt haldið í lágmarki hvort heldur sem er fyrir heilbrigðisþjónustu eða lyf og hjálpartæki. 

Markmið heilbrigðisþjónustunnar á að vera að bæta lífsgæði, auka vellíðan og stuðla að því að fólk geti búið við  bestu mögulegu heilsu.  Við viljum samfélag sem auðveldar öllum að taka góðar ákvarðanir fyrir sína heilsu, samfélag sem stuðlar að vellíðan. Þannig bætum við lýðheilsu. Heilbrigðiskerfið á að vera vel skipulagt, vel fjármagnað og vel mannað. 

Með íbúafjölgun, hækkandi aldri og fjölgun ferðamanna er fjármögnun heilbrigðiskerfisins  eitt stærsta verkefni stjórnvalda og okkar sem samfélags á næstu árum og áratugum. Ljóst er að Ísland ver hlutfallslega mun minni fjármunum til heilbrigðismála en hin Norðurlöndin.  Fjármagn eitt og sér leysir þó ekki þann áralanga vanda sem steðjað hefur að heilbrigðiskerfinu. Samfylkingin hefur skýra sýn á hvað gera þarf til að heilbrigðiskerfið uppfylli betur þau grundvallarmarkmið sem kerfið byggist á. Þróa þarf mælikvarða fyrir árangur og gæði heilbrigðisþjónustu til að geta metið hvernig kerfið mætir þörfum notenda og samfélagsins. Endurskoða þarf skipulag og verkaskiptingu innan heilbrigðisþjónustunnar, hvaða starfseiningar sinna hvaða verkefnum og hvort nýta megi betur húsnæði og þann  mannauð sem starfar innan heilbrigðiskerfisins um allt land. Þá þurfa stjórnvöld að tryggja Embætti Landlæknis, Sjúkratryggingar Íslands og aðrir eftirlitsaðilar séu burðugir til að sinna sínum lögbundnu og mikilvægu verkefnum.

Samfylkingin vill að uppbyggingu nýs Landspítala verði hraðað og að spítalanum verði tryggð viðunandi fjármögnun þannig að  hann geti sinnt hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús í þágu allra landsmanna. Geðdeildir Landspítalans eiga þar ekki að vera undanskildar heldur þarf að hefja án tafar uppbyggingu nýs húsnæðis fyrir geðdeildir Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri með með nútímalegri nálgun á meðferð sjúklinga með geðrænar áskoranir að leiðarljósi. 

Halda þarf áfram að efla heilbrigðisstofnanir um allt land og tryggja að allir landsmenn njóti slíkrar þjónustu sem næst heimabyggð. Tryggja þarf veiku fólki, sem ekki getur lengur búið í heimahúsi, hjúkrunarrými næst heimabyggð. Samfylkingin vill að fari fram endurskoðun á sjúkraflugi á Íslandi, með þarfir og öryggi íbúa að leiðarljósi. Fjölga þarf hjúkrunarrýmum verulega og tryggja fullnægjandi greiðslu stjórnvalda með hverju hjúkrunarrými. Samfylkingin vil samþætta stuðningsþjónustu sveitarfélaga og heimahjúkrun til að tryggja samfellda þjónustu inni á heimilum fólks.   Öll þjónusta við aldraða, fólk með fötlun og langvinna sjúkdóma, þarf að vera samþætt og aðgengileg.

Samfylkingin vill að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái einnig til þjónustu vegna tannheilsu og geðheilsu. Þannig nái greiðsluþátttaka einnig til tannréttinga barna, tannviðgerða fullorðinna og loks  sálfræðiþjónustu, eins og Alþingi hefur þegar samþykkt með lögum.

Auka þarf þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á aðstæðum jaðarsettra hópa, svo sem fatlaðra og þeirra sem eiga við vímuefnavanda að etja. Þá þarf að auka þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á sértækum sjúkdómum kvenna og bæta þjónustu vegna þeirra.