Sterk almenn velferðarþjónusta
Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla
Sterk almenn velferðarþjónusta
Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í velferðarþjónustu
- Inngangur
- Félagslegar tryggingar
- Fátækt
- Húsnæði
- Fjölskyldan
- Eldri borgarar
- Fatlað fólk
- Heilbrigðisþjónusta
- Skaðaminnkun og regluvæðing neysluskammta
- Heilbrigðisstarfsfólk
- Lýðheilsa
- Endurhæfing og virðing við fanga
Sterk almenn velferðarþjónusta er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.
Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla. Andstæða þess er samfélag ójöfnuðar og ölmusu þar sem lífsafkoma almennings er háð geðþótta hinna fáu og fjársterku. Við viljum að velferðarþjónustan komi okkur öllum til góða og sé til staðar á öllum stigum lífsins.
Við erum stolt af þeim stórtæku samfélagsbreytingum og sigrum sem forverar okkar hafa unnið, hér á landi og víðar. Það er engin tilviljun að farsælustu og mannvænustu samfélög heims er að finna í þeim löndum þar sem tekist hefur að byggja upp velferðarþjónustu í anda jafnaðarstefnu. En það er ekki nóg að byggja upp slíkt kerfi – við verðum stöðugt að halda vöku okkar, standa vörð um þann árangur sem náðst hefur og ráðast í nauðsynlegar umbætur þar sem þörf er á.
Ljóst er að margt má betur fara í íslensku velferðarkerfi og því viljum við breyta. Kerfið byggir í of ríkum mæli á skerðingum og tekjutengingum og er hvorki nógu almennt né nógu sterkt. Alltof mörg falla á milli kerfa, festast í fátæktargildru eða lifa í einsemd og einangrun. Alltof mörg þurfa að óttast um lífsafkomu sína, neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu eða alast upp í fátækt. Almenningur á Íslandi á skilið sterka almenna velferðarþjónustu að norrænni fyrirmynd, víðtækar félagslegar tryggingar sem tryggja lífsafkomu okkar gegn áföllum og fátækt, jafnt aðgengi að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, myndarlegan stuðning við börn og foreldra, aðstoð þegar á þarf að halda, húsnæðisöryggi, mannréttindi og síðast en ekki síst virðingu.
Hornsteinn velferðarsamfélags jafnaðarmanna er virðing okkar allra fyrir hverjum og einum. Þess vegna leggur Samfylkingin ríka áherslu á að notendasamráð sé viðhaft við alla stefnumótun og ákvarðanatöku. Við viljum skapa fólki tækifæri til að nýta styrkleika sína. Samfélag sem styður við og gerir ráð fyrir virkri þátttöku allra er okkar takmark.