Sterk almenn velferðarþjónusta
Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla
Sterk almenn velferðarþjónusta
Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu.
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í velferðarþjónustu
- Inngangur
- Félagslegar tryggingar
- Fátækt
- Húsnæði
- Fjölskyldan
- Eldri borgarar
- Fatlað fólk
- Heilbrigðisþjónusta
- Skaðaminnkun og regluvæðing neysluskammta
- Heilbrigðisstarfsfólk
- Lýðheilsa
- Endurhæfing og virðing við fanga
Fjölbreytt framboð á húsnæði fyrir alla
Samfylkingin vill tryggja húsnæðisöryggi allra Íslendinga. Í augum jafnaðarmanna eru það mannréttindi að þurfa ekki að lifa við óvissu og óöryggi um þak yfir höfuðið. Þá er viðráðanlegt verð á húsnæði eitt mikilvægasta kjaramál almennings enda er húsnæðiskostnaður að jafnaði stærsti útgjaldaliður heimila. Hið opinbera þarf að beita sér fyrir fjölbreyttu framboði á húsnæðismarkaði. Reynslan sýnir að markaðurinn gerir það aldrei upp á sitt einsdæmi.
Besta leiðin til að auka framboð og fjölbreytni á húsnæðismarkaði er að beina framlögum hins opinbera í auknum mæli til uppbyggingar í samstarfi við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða. Þannig má tempra verð og á sama tíma mæta þeim hópum sem eiga helst á hættu að lenda í klemmu á markaðnum. Samfylkingin hefur verið leiðandi í þessum efnum á sveitarstjórnarstiginu, meðal annars með uppbyggingu í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og byggingarfélög á vegum stúdenta og eldri borgara. Við viljum halda áfram á þeirri braut, auka stofnframlög til uppbyggingar í samstarfi við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða og hækka tekju- og eignamörk. Það dregur þó ekki úr mikilvægi þess að byggja áfram hefðbundið félagslegt húsnæði, íbúðir fyrir fatlað fólk og sérstök búsetuúrræði fyrir heimilislausa, þar sem Samfylkingin hefur einnig verið í forystu.
Jafnaðarmenn leggja höfuðáherslu á mikilvægi félagslegrar blöndunar í allri húsnæðisuppbyggingu. Við viljum að á Íslandi sé eitt samfélag fyrir alla en ekki aðskilnaður eftir efnahag eða uppruna. Markmiðum um félagslega blöndun má ná með skilyrðum í samningum við byggingaraðila, líkt og tíðkast hefur í Reykjavík undanfarin ár. Að sama skapi leggur Samfylkingin þunga áherslu á að allt skipulag byggðar miði að því að skapa mannvænt og grænt umhverfi sem býður upp á tækifæri til heilsueflandi og loftslagsvænna lífshátta.
Mikilvægt er að húsnæðisstuðningur þróist til samræmis við þróun tekna og byrði húsnæðiskostnaðar fari ekki yfir 25% af ráðstöfunartekjum að jafnaði.
Endurskoða þarf í heild stuðningskerfin með því markmiði að beina stuðningnum fyrst og fremst að tekju- og eignalágum einstaklingum og fjölskyldum.
Húsnæðisöryggi felur í sér að fólk ráði við byrði húsnæðiskostnaðar, búi í heilnæmu húsnæði og þurfi ekki að flytja nema það svo sjálft kjósi. Mælikvarðar verði: Byrði húsnæðiskostnaðar, biðlistar eftir félagslegu húsnæði og hjá leigufélögum, fjöldi heimilislausra, stöðugleiki í búsetu, ástand húsnæðis og þröngbýli.
Heimildir lífeyrissjóða verði rýmkaðar þannig að þeim verði gert það fært að fjárfesta í íbúðarhúsnæði.