Stjórnarfar og mannréttindi

Samfylkingin berst fyrir auknu lýðræði, valddreifingu og jafnri aðstöðu allra einstaklinga til þátttöku í ákvörðunum sem varða þá sjálfa og samfélagið allt.

Stjórnarfar og mannréttindi

Við viljum samfélag þar sem öll eru jöfn fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Barnvænt samfélag

Allar ákvarðanir og ráðstafanir yfirvalda gagnvart börnum skulu byggjast á þeirri grundvallarreglu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að það sem er barni fyrir bestu hafi alltaf forgang. Stjórnvöld eiga að sýna börnum virðingu og veita þeim tækifæri til að tjá sig um mál sem þau varða.

Börn eiga að njóta vafans þegar grunur er um ofbeldi á heimili. Rýna þarf lagaumhverfi og lagaframkvæmd barnaverndar- og umgengnismála með hliðsjón af þessu.

Samfylkingin vill að börn fái snemmtækan stuðning og þá þjónustu sem þau þurfa til að geta nýtt hæfileika sína og liðið vel. Vellíðan barna í daglegu lífi leggur grunn að árangri í skóla- og frístundastarfi, að heilbrigði og að virkri þátttöku í samfélaginu.