Stjórnarfar, mannréttindi og lýðræði

Samfylkingin gefur aldrei afslátt af þessum grundvallarkröfum siðaðs samfélags.

Stjórnarfar og mannréttindi

Ísland á að vera samfélag þar sem allir borgarar eru jafnir fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, búsetu, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Gagnsæ og vönduð stjórnsýsla

Samfylkingin beitir sér fyrir opinni, gagnsærri, lögmætri og skilvirkri stjórnsýslu þar sem jafnræði er í heiðri haft. Stjórnvaldsákvarðanir verða að byggja á málefnalegum sjónarmiðum, þar á meðal allar ákvarðanir um stöðuveitingar í stjórnsýslunni. 

Rafræn stjórnsýsla eins og opinbera upplýsinga- og þjónustuveitan Ísland.is og rafræn skilríki skulu ávallt að vera í eigu íslenska ríkisins. Einnig skal tryggja að einstaklingar með fötlun og eldra fólk geti alltaf fengið upplýsingar og þjónustu þrátt fyrir að hafa ekki rafræn skilríki. Jafnframt skal vinna að því að yfirstíga tungumálahindranir í vegi upplýsingagjafar og þjónustu. Almenningur á að eiga greiðan aðgang að upplýsingum í vörslu hins opinbera samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. 

Embætti Umboðsmanns Alþingis á að  hafa nægan mannafla til að sinna frumkvæðisathugunum vegna brotalama í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Stjórnvöld eiga að bregðast hratt við fyrirspurnum embættisins og fylgja tilmælum þess.