Stjórnarfar og mannréttindi

Samfylkingin berst fyrir auknu lýðræði, valddreifingu og jafnri aðstöðu allra einstaklinga til þátttöku í ákvörðunum sem varða þá sjálfa og samfélagið allt.

Stjórnarfar og mannréttindi

Við viljum samfélag þar sem öll eru jöfn fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Opin og vönduð stjórnsýsla

Samfylkingin beitir sér fyrir opinni, gagnsærri og skilvirkri stjórnsýslu þar sem jafnræði er í heiðri haft gagnvart borgurum landsins og allar ákvarðanir eiga sér stoð í lögum og byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, þar á meðal allar ákvarðanir um stöðuveitingar í stjórnsýslunni.

Skerpa þarf á framkvæmd reglna um skráningu upplýsinga og samskipta í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Styrkja þarf upplýsingalög og framkvæmd þeirra til að almenningur þurfi ekki að bíða mánuðum saman eftir upplýsingum sem hann á lögvarinn rétt á.

Umboðsmaður Alþingis verður að hafa mannafla til að sinna frumkvæðisathugunum vegna brotalama í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Stjórnvöld eiga að bregðast hratt við fyrirspurnum embættisins og fylgja tilmælum þess. Þá þarf að styrkja OPCAT eftirlit embættis Umboðsmanns Alþingis með öllum þeim sem eru frelsissviptir.