Stjórnarfar og mannréttindi

Samfylkingin berst fyrir auknu lýðræði, valddreifingu og jafnri aðstöðu allra einstaklinga til þátttöku í ákvörðunum sem varða þá sjálfa og samfélagið allt.

Stjórnarfar og mannréttindi

Við viljum samfélag þar sem öll eru jöfn fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Hinsegin fólk

Ísland á að skipa sér í fremstu röð á alþjóðavísu hvað varðar réttarstöðu hinsegin fólks. Vinna þarf áfram að bættri réttarstöðu þessara hópa í samvinnu við félög og fulltrúa þeirra.

Fræðsla er besta forvörnin gegn fordómum, útskúfun og ofbeldi. Samfylkingin telur það brýnt að halda áfram vinnu um aukna hinseginfræðslu í skólum og meðal fagfólks til þess að vinna gegn fordómum og staðalímyndum í samfélaginu.

Samfylkingin vill að samtök sem vinna í þágu hagsmuna hinsegin fólks verði tryggðir fjármunir í fjárlögum og þjónustusamningar verði gerðir til lengri tíma til að stuðla að markvissri uppbyggingu á sértækri þjónustu. Þá þarf að styðja sérstaklega við að hinsegin börn hafi aðgengi að félagslegum vettvangi, s.s. Hinsegin félagsmiðstöð, og slíkt félagsstarf þarf að vera aðgengilegt á fleiri stöðum en í Reykjavík.

Stytta þarf biðlista fyrir trans fólk, bæði fyrir börn og fullorðin, svo þau þurfi ekki að bíða óhóflega lengi eftir viðeigandi heilbrigðisaðstoð. 

Samfylkingin telur að banna þurfi skurðaðgerðir á börnum með ódæmigerð kyneinkenni sem eru of ung til að taka sjálf upplýsta ákvörðun um slíka aðgerð, nema vegna brýnna heilbrigðis ástæðna. 

Samfylkingin tekur afdráttarlausa afstöðu gegn hatursorðræðu, sérstaklega þegar hún sett er fram í þeim tilgangi að auka og efla skautun í þjóðfélaginu og ýta undir hatur og fordóma gegn ýmsum þjóðfélagshópum. Mikilvægt er að gera skýra grein í lögum um hatursorðræðu og áróður. Tjáningarfrelsinu fylgir ábyrgð. 

Samfylkingin vill tryggja rétt alls fólks til þess að lifa með reisn án ótta við ofbeldi. Vinna þarf markvisst að forvörnum og fræðslu gegn ofbeldi og sú fræðsla þarf að ná til fólks á öllum aldri og til allra hópa, svo sem jaðarhópa á borð við hinsegin fólk. Styðja þarf við hinsegin fólk sem mætir margþættri mismunun vegna þess að það hefur margþætta jaðarsetningu, m.a. hinsegin flóttafólk og fatlað hinsegin fólk. 

Ísland taki sér skýra stöðu fyrir mannréttindum hinsegin fólks, tali fyrir réttindum þess  í alþjóðastarfi og innan alþjóðastofnana. Fulltrúar Íslands rísi upp gegn hvers kyns ofbeldi og mismunun gegn hinsegin fólki og fylki öðrum með sér þegar kerfisbundið er sótt er að réttindum hinsegin fólks. Mannréttindabarátta hinsegin fólks verði haldið hátt á lofti í íslenskri utanríkisstefnu. Einnig eiga íslensk stjórnvöld að taka sérstaklega vel á móti hinsegin flóttafólki sem neyðist til að flýja sína heimahaga sökum kynhneigðar.