Stjórnarfar, mannréttindi og lýðræði

Samfylkingin gefur aldrei afslátt af þessum grundvallarkröfum siðaðs samfélags.

Stjórnarfar og mannréttindi

Ísland á að vera samfélag þar sem allir borgarar eru jafnir fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, búsetu, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Hinsegin fólk

Ísland á að skipa sér í fremstu röð á alþjóðavísu hvað varðar réttarstöðu hinsegin og kynsegin fólks. Fræðsla er besta forvörnin gegn fordómum, útskúfun og ofbeldi. Vinna þarf markvisst að forvörnum og fræðslu gegn ofbeldi og gegn bakslagi í garð hinsegin og kynsegin fólks og áfram að bættri réttarstöðu þeirra í samvinnu við félagasamtök þess. Sú fræðsla þarf að ná til fólks á öllum aldri og brýnt er að halda áfram að efla hinseginfræðslu í skólum.

Samtökum sem vinna í þágu hagsmuna hinsegin fólks skal tryggja fjármuni í fjárlögum og gera þjónustusamninga til lengri tíma til að stuðla að markvissri uppbyggingu á sértækri þjónustu um allt land. Þá þarf að styðja sérstaklega við að hinsegin börn hafi aðgengi að félagslegum vettvangi eins og Hinsegin félagsmiðstöð.

Stytta þarf biðtíma fyrir trans fólk, bæði börn og fullorðin, svo þau þurfi ekki að bíða óhóflega  lengi eftir viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Samfylkingin telur jafnframt að banna þurfi skurðaðgerðir á börnum með ódæmigerð kyneinkenni sem eru of ung til að taka sjálf upplýsta ákvörðun um slíka aðgerð, nema vegna brýnna heilbrigðis ástæðna.

Mikilvægt er að tryggja rétt alls fólks til þess að lifa með reisn án ótta við ofbeldi og tekur Samfylkingin afdráttarlausa afstöðu gegn hatursorðræðu og annars konar ofbeldi, sérstaklega þegar það sprettur fram í þeim tilgangi að ýta undir hatur og fordóma í garð hinsegin fólks og annarra þjóðfélagshópa og auka þar með skautun í þjóðfélaginu.

Ísland taki sér skýra stöðu fyrir mannréttindum hinsegin fólks, tali fyrir réttindum þess  í alþjóðastarfi og innan alþjóðastofnana. Fulltrúar Íslands rísi upp gegn hvers kyns ofbeldi og mismunun gegn hinsegin fólki og fylki öðrum með sér þegar kerfisbundið er sótt er að réttindum hinsegin fólks. Mannréttindabarátta hinsegin fólks verði haldið hátt á lofti í íslenskri utanríkisstefnu. Einnig eiga íslensk stjórnvöld að taka sérstaklega vel á móti hinsegin flóttafólki sem neyðist til að flýja sína heimahaga sökum hinseginleika.