Stjórnarfar, mannréttindi og lýðræði

Samfylkingin gefur aldrei afslátt af þessum grundvallarkröfum siðaðs samfélags.

Stjórnarfar og mannréttindi

Ísland á að vera samfélag þar sem allir borgarar eru jafnir fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, búsetu, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Jafnrétti

Samfylkingin vinnur gegn hvers kyns mismunun sem tilkomin er vegna kyns, uppruna, þjóðernis, fötlunar, kynvitundar, kyneinkenna eða annarra þátta.

Samfylkingin er femínískur flokkur sem vill jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Sem femínískur flokkur beitir Samfylkingin sér af alefli gegn kynbundnu ofbeldi, fordómum og mismunun af öllu tagi, þ.m.t. launamun milli kynjanna og launamun milli innfæddra og aðfluttra kvenna. Samfylkingin styður endurmat á virði hefðbundinna kvennastarfa með launajafnrétti að markmiði. Í þeirri vinnu þarf að greina sérstaklega mun á ævitekjum milli kynja, lífeyrisgreiðslum og eignum til þess að jafna eða draga verulega úr þessum mun, m.a. með leiðum eins og kynjaðri fjárlagagerð og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í stefnumótun og ákvarðanatöku hins opinbera.