Stjórnarfar, mannréttindi og lýðræði

Samfylkingin gefur aldrei afslátt af þessum grundvallarkröfum siðaðs samfélags.

Stjórnarfar og mannréttindi

Ísland á að vera samfélag þar sem allir borgarar eru jafnir fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, búsetu, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Virkt lýðræði með þátttöku almennings

Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu eiga að vega jafnt og þingstyrkur stjórnmálaflokka að samræmast kjörfylgi þeirra. Kjósendur þurfa að geta gengið að því vísu að rétt sé staðið að kosningum. Miða skal almennan kosningarétt við 16 ára aldur og grípa til markvissra aðgerða til að auka kosninga- og stjórnmálaþátttöku bæði ungs fólks og fólks af erlendum uppruna sem búsett er hér á landi. 

Auka þarf enn frekar beina aðkomu almennings að stefnumótun og ákvarðanatöku hjá ríki og sveitarfélögum, bæði með samráði eftir rafrænum leiðum og með reglulegum íbúa- og þjóðfundum um mikilsverð málefni. Jafnframt þarf að tryggja að tekið sé tillit til sjónarmiða almennings í málum sem sannarlega varða almannahag með þjóðaratkvæðagreiðslum eða auknum meirihluta atkvæða þingmanna eftir atvikum. Hvoru tveggja kallar á breytingu á stjórnarskrá.