Stjórnarfar, mannréttindi og lýðræði
Samfylkingin gefur aldrei afslátt af þessum grundvallarkröfum siðaðs samfélags.
Stjórnarfar og mannréttindi
Ísland á að vera samfélag þar sem allir borgarar eru jafnir fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, búsetu, uppruna eða stöðu að öðru leyti.
Veldu málefni undir jafnaðarstefnan og mannréttindi
- Inngangur
- Stjórnarskrárumbætur
- Réttarríkið Ísland og jafnræði
- Mannúðlegt fangelsiskerfi
- Þolendavænt réttarkerfi
- Tjáningarfrelsi og fjórða stoðin – fjölmiðlar
- Stjórnsýslan
- Barnvænt samfélag
- Lýðræði
- Inngilding fólks af erlendum uppruna
- Trúfrelsi
- Jafnrétti
- Hinsegin fólk
Réttarríkið Ísland og jafnræði
Öll eiga að hafa greiðan aðgang að dómstólum óháð félagslegri og efnahagslegri stöðu. Gæta þarf sérstaklega að stöðu einstaklinga og hópa sem hætt er við jaðarsetningu og að verða fyrir mismunun vegna þátta eins og uppruna, tungumáls, kyns og fötlunar og grípa til úrræða til að tryggja jafna stöðu þeirra gagnvart dómskerfinu. Brýnt er vinna sérstaklega gegn ofbeldi og vopnaburði meðal ungmenna með félagslegum úrræðum og snemmtækum aðgerðum.
Samfylkingin gerir kröfu um að réttarkerfið sé varið fyrir óeðlilegum afskiptum valdhafa og misbeitingu veitingarvalds í þágu flokkspólitískra hagsmuna eða annarra sérhagsmuna. Til að rétturinn til sanngjarnrar málsmeðferðar fyrir óvilhöllum dómstóli sé virtur þarf sjálfstæði og óhlutdrægni dómsvaldsins að vera ótvírætt og fagleg sjónarmið að ráða för við skipun dómara. Þetta er ein af forsendum þess að grundvallarreglur réttarríkisins séu virtar, að Ísland uppfylli alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sínar og til að auka megi traust almennings til dómstóla.
Samfylkingin vill tryggja öfluga löggæslu um land allt. Til þess þarf að fjölga lögreglufólki og bæta aðbúnað, menntun og starfskjör þess. Auka þarf fjármagn til rannsókna sakamála, sérstaklega þegar kemur að kynbundnu ofbeldi, kynferðisbrotum og hatursglæpum og til að tryggja faglega og þolendavæna rannsókn þeirra. Efla þarf samstarf íslenskra og alþjóðlegra efnahagsbrotadeilda til þess að tryggja að efnahagsbrot verði að fullu upplýst. Þá þarf að tryggja að lögregla hafi viðeigandi úrræði til að taka á skipulagðri glæpastarfsemi, svo sem með heimildum til sérstakra rannsóknarúrræða og til að sinna virku landamæraeftirliti.
Leggja þarf áherslu á að lögreglan endurspegli samfélagið með ráðningu fólks af öllum kynjum og uppruna til að tryggja að hún hafi sem bestan aðgang að og njóti trausts meðal mismunandi samfélagshópa. Jafnframt þarf að efla sjálfstætt og óháð eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu til að auka traust til lögreglunnar. Samhliða þarf að efla samfélagslöggæslu, til að efla bæði lausnar- og forvarnamiðaðar aðgerðir í samvinnu lögreglu og almennings og þar með öryggi og traust í garð lögreglunnar.