Stjórnarfar, mannréttindi og lýðræði

Samfylkingin gefur aldrei afslátt af þessum grundvallarkröfum siðaðs samfélags.

Stjórnarfar og mannréttindi

Ísland á að vera samfélag þar sem allir borgarar eru jafnir fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, búsetu, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Þolendavænt réttarkerfi

Samfylkingin vill ráðast í markvissar aðgerðir til að bæta réttarstöðu og þolendavæna aðstoð við brotaþola í öllum málum með sérstaka áherslu á ofbeldi í nánum samböndum og kynferðisbrotamál. Mikilvægt er að halda áfram að þróa og innleiða nálgun á landsvísu þar sem hugað er sérstaklega að börnum sem beinum eða óbeinum þolendum ofbeldis. Börn eiga að njóta vafans þegar grunur er um ofbeldi á heimili.

Þolendur eiga að geta gerst aðilar að sakamáli eða að njóta flestra þeirra réttinda sem felast í málsaðild líkt og tíðkast í flestum norrænu ríkjunum. Samfylkingin vill tryggja gjafsókn, auka aðgengi að og upplýsingagjöf um hana. Þá vill Samfylkingin einnig tryggja gjaldfrjálsa lögfræðiráðgjöf til fólks sem á rétt á gjafsókn og túlka- og táknmálsþjónustu eftir þörfum. Efla þarf sálrænan, félagslegan og eftir atvikum efnahagslegan stuðning við þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis.

Öll mál verða að fá skjóta og vandaða málsmeðferð í réttarkerfinu. Fái sakborningur refsilækkun vegna tafa hjá ákæruvaldi eða dómstólum ætti brotaþoli jafnframt að eiga rétt til tafabóta af hálfu ríkisins. Jafnframt þarf að fjölga fyrirbyggjandi aðgerðum og úrræðum fyrir gerendur ofbeldis innan fangelsis og utan. 

Viðbrögð við mansali eiga að vera í samræmi við lög og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Tryggja þarf sterkari lagalegan ramma utan um mismunandi birtingarmyndir mansals auk þess sem viðbrögð við mansali þurfa að verða þolendavænni. Tryggja þarf brotaþola langtímastuðning og öryggi meðan mál eru í rannsókn og eftir að dómur fellur.

Markvisst þarf að vinna að forvörnum og fræðslu gegn ofbeldi og mansali í samvinnu við sveitarfélög um allt land, lögreglu, grasrótarhreyfingar og jaðarsetta hópa sem hætt er við misnotkun. Þolendur þurfa að fá félagslegan stuðning og ráðgjöf. Taka þarf sérstaklega utan um jaðarsetta þolendur ofbeldis, svo sem fatlað fólk, fólk af erlendum uppruna og transfólk, enda eru þeir hópar í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Stuðningur og úrræði þurfa að taka mið af þörfum hvers hóps fyrir sig.