Stjórnarfar og mannréttindi

Samfylkingin berst fyrir auknu lýðræði, valddreifingu og jafnri aðstöðu allra einstaklinga til þátttöku í ákvörðunum sem varða þá sjálfa og samfélagið allt.

Stjórnarfar og mannréttindi

Við viljum samfélag þar sem öll eru jöfn fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Þolendavænt réttarkerfi

Samfylkingin vill ráðast í markvissar aðgerðir til að bæta réttarstöðu brotaþola í öllum málum með sérstaka áherslu á heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamál. Þolendur eiga að geta gerst aðilar að sakamáli eða að njóta flestra þeirra réttinda sem felast í málsaðild líkt og tíðkast í flestum norrænu ríkjunum. Rýmka þarf gjafsóknarreglur fyrir þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis og efla sálrænan og félagslegan stuðning við þolendur.

Öll mál verða að fá skjóta og vandaða málsmeðferð í réttarkerfinu. Fái sakborningur refsilækkun vegna tafa hjá ákæruvaldi eða dómstólum ætti brota­þoli jafnframt að fá hærri bætur og ættu tafabætur að greiðast af ríkinu.

Viðbrögð við mansali þurfa að verða þolendavænni. Tryggja þarf brotaþola langtímastuðning og öryggi meðan mál eru í rannsókn.

Markvisst þarf að vinna að forvörnum og fræðslu gegn ofbeldi í samvinnu við sveitarfélög um allt land, lögreglu,grasrótarhreyfingar og jaðarsetta hópa. Þolendur þurfa að fá félagslegan stuðning og ráðgjöf og fjölga þarf úrræðum fyrir gerendur. Taka þarf sérstaklega utan um jaðarsetta þolendur ofbeldis, svo sem fatlað fólks, fólk af erlendum uppruna og transfólk, enda eru þeir hópar í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Stuðningur og úrræði þurfa að taka mið af þörfum þessa hópa.