Stjórnarfar og mannréttindi

Samfylkingin berst fyrir auknu lýðræði, valddreifingu og jafnri aðstöðu allra einstaklinga til þátttöku í ákvörðunum sem varða þá sjálfa og samfélagið allt.

Stjórnarfar og mannréttindi

Við viljum samfélag þar sem öll eru jöfn fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Traust löggæsla

Fjölga þarf lögregluþjónum og bæta aðbúnað og starfskjör þeirra til að tryggja öryggi og öfluga löggæslu um allt land. Pólitískt hlutleysi lögreglunnar verður að vera hafið yfir allan vafa og  stöðuveitingar í löggæslukerfinu skulu alfarið byggja á faglegum sjónarmiðum. Auka þarf fjármagn til rannsókna sakamála sérstaklega þegar kemur að kynferðisbrotum til að tryggja faglega og fullnægjandi rannsókn. Efla þarf samstarf íslenskra og alþjóðlegra efnahagsbrotadeilda til þess að tryggja að efnahagsbrot verði að fullu upplýst.  

Efla þarf sjálfstætt og óháð  eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu til að auka traust til lögreglunnar. Jafnframt þarf að tryggja að „fjögurra augna“-reglunni sé fylgt í hvívetna þannig að  fleiri en einn lögregluþjónn komi alltaf að lögregluaðgerðum og gerð lögregluskýrslna. Halda þarf áfram að jafna kynjahlutföll innan lögreglunnar og vinna gegn kynjamisrétti og fordómum gagnvart jaðarsettum hópum.