Stjórnarfar og mannréttindi

Samfylkingin berst fyrir auknu lýðræði, valddreifingu og jafnri aðstöðu allra einstaklinga til þátttöku í ákvörðunum sem varða þá sjálfa og samfélagið allt.

Stjórnarfar og mannréttindi

Við viljum samfélag þar sem öll eru jöfn fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Ný stjórnarskrá byggð á tillögum stjórnlagaráðs

Samfylkingin vill að Alþingi samþykki breytingar á stjórnarskrá sem byggjast á tillögum stjórnlagaráðs og þeim þjóðarvilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012. Alþingi skuldar þjóðinni að ljúka því opna og lýðræðislega ferli.

Treysta þarf grundvallarinnviði lýðræðissamfélagsins og setja valdhöfum skýrari meginreglur, ábyrgð og hlutverk en gert er í gildandi stjórnarskrá. Ákvæði um þjóðareign auðlinda, þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valds, jafnt atkvæðavægi og umhverfisvernd eru á meðal þeirra fjölmörgu atriða sem brýnt er að bundin verði í stjórnarskrá sem fyrst.