Stjórnarfar og mannréttindi

Samfylkingin berst fyrir auknu lýðræði, valddreifingu og jafnri aðstöðu allra einstaklinga til þátttöku í ákvörðunum sem varða þá sjálfa og samfélagið allt.

Stjórnarfar og mannréttindi

Við viljum samfélag þar sem öll eru jöfn fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Tjáningarfrelsi og frjálsir og fjölbreyttir fjölmiðlar

Frjálsir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í lýðræðisþjóðfélagi og eru nauðsynleg undirstaða upplýstrar þjóðfélagsumræðu. Samfylkingin vill tryggja rekstrargrundvöll einkarekinna miðla með ríkisframlögum til lengri tíma en eins árs í senn gera þeim kleift að starfa óháðir fjármálavaldi sitjandi ráðherra og stuðla þannig að heilbrigðara fjölmiðlaumhverfi á Íslandi. Standa þarf vörð um sjálfstæði Ríkisútvarpsins og tryggja stofnuninni bolmagn til að upplýsa og veita aðhald án óeðlilegra afskipta valdhafa.

Draga þarf lærdóm af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem íslenska ríkið hefur verið dæmt brotlegt við tjáningarfrelsisákvæði mannréttindasáttmálans. Vinna þarf gegn lögsóknum gegn fjölmiðlafólki og ganga úr skugga um að löggjöf um meiðyrði standist kröfur nútímans. Lögbann á fréttaflutning er varðar almannahag er ósamrýmanlegt reglum lýðræðissamfélagsins  og má ekki líðast. Endurskoða þarf lög og lagaframkvæmd til að tryggja að fréttaflutningur um valdhafa í aðdraganda kosninga verði aldrei stöðvaður með valdi. Tjáningafrelsinu fylgir hins vegar ábyrgð og tekur Samfylkingin afdráttarlausa afstöðu gegn hatursorðræðu, ekki síst þegar hún er sett fram í þeim tilgangi að auka skautun í þjóðfélaginu og ýta undir hatur og fordóma gegn ýmsum þjóðfélagshópum sem er alþjóðlegt vandamál.