Stjórnarfar, mannréttindi og lýðræði
Samfylkingin gefur aldrei afslátt af þessum grundvallarkröfum siðaðs samfélags.
Stjórnarfar og mannréttindi
Ísland á að vera samfélag þar sem allir borgarar eru jafnir fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, búsetu, uppruna eða stöðu að öðru leyti.
Veldu málefni undir jafnaðarstefnan og mannréttindi
- Inngangur
- Stjórnarskrárumbætur
- Réttarríkið Ísland og jafnræði
- Mannúðlegt fangelsiskerfi
- Þolendavænt réttarkerfi
- Tjáningarfrelsi og fjórða stoðin – fjölmiðlar
- Stjórnsýslan
- Barnvænt samfélag
- Lýðræði
- Inngilding fólks af erlendum uppruna
- Trúfrelsi
- Jafnrétti
- Hinsegin fólk
Stjórnarfar, ríkisvald og mannréttindi
Stjórnarfar, ríkisvald og mannréttindi
Samfylkingin berst fyrir auknu lýðræði, valddreifingu og jafnri aðstöðu allra einstaklinga til þátttöku í ákvörðunum sem varða þá sjálfa og samfélagið allt.
Við viljum samfélag þar sem allir eru jafnir fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kyns, kynhneigðar, efnahags, uppruna eða stöðu að öðru leyti. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna og öllum tryggð mannhelgi, persónufrelsi og vernd gegn ofbeldi og öðrum mannréttindabrotum. Samfylkingin gefur aldrei afslátt af þessum grundvallarkröfum siðaðs samfélags.
Almannavaldi skal beitt með hófsemd samkvæmt fyrirsjáanlegum leikreglum. Lög eiga að vera skýr, framvirk og aðgengileg og enginn skal vera háður geðþótta yfirvalda. Jafnrétti allra gagnvart ríkisvaldinu ber að tryggja með óvilhallri framkvæmd löggæslu, dómsvalds og allrar stjórnsýslu.
Ný og betri stjórnarskrá
Samfylkingin vill að Alþingi samþykki breytingar á stjórnarskrá sem byggjast á tillögum stjórnlagaráðs og þeim þjóðarvilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012. Alþingi skuldar þjóðinni að ljúka því opna og lýðræðislega ferli stjórnlagabreytinga sem hófst eftir hrun.
Treysta þarf grundvallarinnviði lýðræðissamfélagsins og setja valdhöfum skýrari meginskyldur, ábyrgð og hlutverk en gert er í gildandi stjórnarskrá. Ákvæði um þjóðareign auðlinda, þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valds, jafnt atkvæðavægi og umhverfisvernd eru á meðal þeirra fjölmörgu atriða sem brýnt er að bundin verði í stjórnarskrá sem fyrst.
Réttarríkið Ísland
Allir eiga að hafa greiðan aðgang að dómstólum óháð efnahag, uppruna og stöðu að öðru leyti. Gæta þarf sérstaklega að stöðu jaðarsettra hópa við meðferð mála á öllum stigum.
Til að rétturinn til sanngjarnrar málsmeðferðar fyrir óvilhöllum dómstóli sé virtur þarf sjálfstæði og óhlutdrægni dómsvaldsins að vera ótvírætt og fagleg sjónarmið að ráða för við skipun dómara. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu vegna skipunar dómara í Landsrétt er mikilvæg áminning um þetta. Niðurstöðuna þarf að taka alvarlega með viðeigandi ráðstöfunum gagnvart dómþolum sem brotið hefur verið á.
Samfylkingin vill að réttarkerfið sé varið fyrir óeðlilegum afskiptum valdhafa og misbeitingu veitingarvalds í þágu flokkspólitískra hagsmuna. Þetta er ein af forsendum þess að grundvallarreglur réttarríkisins séu virtar, að Íslendingar uppfylli alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar og að auka megi traust almennings til dómstóla.
Traust löggæsla
Fjölga þarf lögreglumönnum og bæta aðbúnað og starfskjör til að tryggja öryggi og öfluga löggæslu um allt land. Pólitískt hlutleysi lögreglunnar verður að vera hafið yfir allan vafa og stöðuveitingar í löggæslukerfinu skulu alfarið byggja á faglegum sjónarmiðum.
Koma þarf á sjálfstæðu og óháðu eftirliti með starfsemi og starfsháttum lögreglu til að auka traust til lögreglunnar. Jafnframt þarf að tryggja að „fjögurra augna“-reglunni sé fylgt í hvívetna og fleiri en einn lögreglumaður komi alltaf að lögregluaðgerðum og gerð lögregluskýrslna. Halda þarf áfram að jafna kynjahlutföll innan lögreglunnar og vinna gegn kynjamisrétti og fordómum gagnvart jaðarsettum hópum.
Þolendavænt réttarkerfi
Samfylkingin vill ráðast í markvissar aðgerðir til að bæta réttarstöðu brotaþola í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum. Þolendur eiga að geta gerst aðilar að sakamáli eða að njóta flestra þeirra réttinda sem felast í málsaðild líkt og tíðkast í flestum norrænu ríkjanna. Rýmka þarf gjafsóknarreglur fyrir þolendur heimilisofbeldis og kynferðisbrota og efla sálrænan og félagslegan stuðning við þolendur.
Kynferðisbrotamál verða að fá skjóta og vandaða málsmeðferð í réttarkerfinu. Fái sakborningur refsilækkun vegna tafa hjá ákæruvaldi eða dómstólum ætti brotaþoli jafnframt að fá hærri bætur frá ríkinu.
Viðbrögð við mansali þurfa að verða þolendavænni. Tryggja þarf brotaþola langtímastuðning og öryggi meðan mál eru í rannsókn.
Samfylkingin vill stofna Ofbeldisvarnarráð Íslands sem vinni markvisst að forvörnum og fræðslu gegn ofbeldi í samvinnu við sveitarfélög um allt land, lögreglu og grasrótarhreyfingar. Þolendur þurfa að fá félagslegan stuðning og ráðgjöf og fjölga þarf úrræðum fyrir gerendur. Taka þarf sérstaklega utan um jaðarsetta þolendur ofbeldis, svo sem fatlaðs fólks, fólks af erlendum uppruna og transfólk, enda eru þeir hópar í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Stuðningur og úrræði þurfa að taka mið af þörfum þessa hópa.
Tjáningarfrelsi og frjálsir fjölmiðlar
Frjálsir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í lýðræðisþjóðfélagi og eru nauðsynleg undirstaða upplýstrar þjóðfélagsumræðu. Samfylkingin vill tryggja rekstrargrundvöll einkarekinna miðla með ríkisframlögum, gera þeim kleift að starfa óháðir fjármálavaldi og stuðla þannig að heilbrigðara fjölmiðlaumhverfi á Íslandi. Standa þarf vörð um sjálfstæði Ríkisútvarpsins og tryggja stofnuninni bolmagn til að upplýsa og veita aðhald án óeðlilegra afskipta valdhafa.
Draga þarf lærdóm af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem íslenska ríkið hefur verið dæmt brotlegt við tjáningarfrelsisákvæði mannréttindasáttmálans. Vinna þarf gegn kælingaráhrifunum sem felast í lögsókn gegn fjölmiðlafólki og ganga úr skugga um að löggjöf um meiðyrði standist kröfur nútímans. Lögbann á fréttaflutning er varðar almannahag er ósamrýmanlegt lýðræðishefðum og má ekki líðast. Endurskoða þarf lög og lagaframkvæmd til að tryggja að fréttaflutningur um valdhafa í aðdraganda kosninga verði aldrei stöðvaður með valdi.
Opin og vönduð stjórnsýsla
Samfylkingin beitir sér fyrir opinni, gagnsærri og skilvirkri stjórnsýslu þar sem jafnræði er í heiðri haft gagnvart borgurum landsins og allar ákvarðanir eiga sér stoð í lögum og byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, þar á meðal allar ákvarðanir um stöðuveitingar í stjórnsýslunni.
Skerpa þarf á framkvæmd reglna um skráningu upplýsinga og samskipta í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Styrkja þarf upplýsingalög og framkvæmd þeirra til að almenningur þurfi ekki að bíða mánuðum saman eftir upplýsingum sem hann á lögvarinn rétt til.
Umboðsmaður Alþingis verður að hafa mannafla til að sinna frumkvæðisathugunum vegna brotalama í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Stjórnvöld eiga að bregðast hratt við fyrirspurnum embættisins og fylgja tilmælum þess.
Barnvænt samfélag
Allar ákvarðanir og ráðstafanir yfirvalda gagnvart börnum skulu byggjast á þeirri grundvallarreglu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að það sem er barni fyrir bestu hafi alltaf forgang. Stjórnvöld eiga að sýna börnum virðingu og veita þeim tækifæri til að tjá sig um mál sem þau varða.
Börn eiga að njóta vafans þegar grunur er um ofbeldi á heimili. Rýna þarf lagaumhverfi og lagaframkvæmd barnaverndar- og umgengnismála með hliðsjón af þessu.
Samfylkingin vill að börn fái snemmtækan stuðning og þá þjónustu sem þau þurfa til að geta nýtt hæfileika sína og liðið vel. Vellíðan barna í daglegu lífi leggur grunn að árangri í skóla- og frístundastarfi, að heilbrigði og að virkri þátttöku í samfélaginu.
Lýðræði og þátttaka
Samfylkingin vill að almennur kosningaréttur miðist við 16 ára aldur og að gripið verði til markvissra aðgerða til að auka kosninga- og stjórnmálaþátttöku ungs fólks. Fara þarf í sérstakt átak til að auka þátttöku fólks af erlendum uppruna í kosningum hér á landi. Auka þarf beina aðkomu almennings að stefnumótun hjá ríki og sveitarfélögum, bæði með samráði eftir rafrænum leiðum og með reglulegum þjóðfundum um mikilsverð málefni. Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu eiga að vega jafnt og þingstyrkur stjórmálaflokka á að samræmast kjörfylgi þeirra.
Opið og fjölbreytt samfélag
Bætt staða innflytjenda á Íslandi er ekki aðeins réttlætismál heldur lykillinn að farsælli uppbyggingu fjölmenningarsamfélags þar sem fjölbreytni, gagnkvæmur skilningur og jöfnuður fara hönd í hönd. Samfylkingin vill liðka fyrir atvinnuþátttöku innflytjenda með sveigjanlegra regluverki og stuðla að því að menntun þeirra fáist í auknum mæli viðurkennd og metin til launa. Auðvelda þarf fólki utan EES-svæðisins að setjast að og vinna á Íslandi. Þá á íslenskukennsla að vera ódýr eða gjaldfrjáls og aðgengileg á fjölbreyttu formi. Samfylkingin telur að hið opinbera eigi að koma að greiðslu fyrir íslenskunámskeið sem séu aðgengileg bæði vinnandi fólki og einstaklingum án atvinnu.
Stjórnvöld eiga að leita allra leiða til að virkja fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu. Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að vinna gegn fordómum og tryggja að aðfluttir upplifi sig velkomna.
Harka gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd stríðir gegn grunngildum okkar um samhygð og samstöðu. Samfylkingin vill ráðast í gagngera endurskoðun á útlendingalöggjöfinni og móttökukerfi umsækjenda um alþjóðlega vernd með mannúð að leiðarljósi og hliðsjón af mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur staðfest.
Trúfrelsi og jafnræði
Samfylkingin stendur vörð um trúfrelsi og sannfæringarfrelsi og vill tryggja jafnræði allra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga gagnvart ríkisvaldinu. Það kallar á fullan lagalegan og fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju.
Umbætur í jafnréttismálum
Samfylkingin er femínískur flokkur sem vill jafna stöðu kynjanna og ráðast af alefli gegn kynbundnum launamun. Við viljum vinna gegn kerfisbundinni mismunun og fordómum og tryggja jafna meðferð á öllum sviðum samfélagsins óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.
Ísland á að skipa sér í fremstu röð á alþjóðavísu hvað varðar réttarstöðu hinseginfólks, kynsegin fólks og fólks með ódæmigerð kyneinkenni. Vinna þarf áfram að bættri réttarstöðu þessara hópa í samvinnu við félög og fulltrúa þeirra.
Betrunarvist og virðing við fanga
Samfylkingin vill að yfirvöld komi fram við fanga af virðingu og tryggi örugga, mannúðlega og vel skipulagða afplánun og betrunarvistun. Fangar eiga að fá tækifæri til ábyrgðar, endurreisnar og farsællar endurkomu út í samfélagið. Menntunarúrræði, starfsþjálfun, öflug sálfræðiþjónusta og tækifæri til samfélagsþjónustu í stað refsivistar eru lykilatriði og geta dregið úr líkum á endurteknum afbrotum.
Brýnt er að íslenska ríkið dragi lærdóm af fjölmörgum dæmum um að fólk sé frelsissvipt að tilhæfulausu eða haldið í gæsluvarðhaldi lengur en þörf var á.
Skaðaminnkun og afglæpavæðing neysluskammta
Samfylkingin vill endurskoða refsiramma vímuefnalöggjafarinnar og auka stuðning og aðstoð við þá sem glíma við vímuefnavanda. Vímuefnaneysla er heilbrigðisvandamál og varsla neysluskammta á ekki að vera refsiverð.
Stjórnvöld eiga að styðja við jaðarsetta hópa og vinna út frá skaðaminnkandi nálgun með ráðgjöf og stuðningi, nálaskiptaþjónustu, hjálp við að draga úr líkum á smiti og sýkingum og aðstoð við að komast í sértækari heilbrigðisþjónustu. Aðgengi að gagnreyndri meðferð er mikilvægt fyrir fólk með vímuefnavanda en skaðaminnkun tekur á þeirri staðreynd að margir sem nota vímuefni eru ófærir um eða vilja ekki hætta notkun þeirra á tilteknum tíma. Því er mikilvægt að bjóða þjónustu og stuðning sem stuðlar að því að lágmarka áhættu og skaða af áframhaldandi notkun vímuefna fyrir einstakling, fjölskyldu og samfélag.